Blaðamannaverðlaun voru veitt á sunnudag, en þau eru veitt í fjórum flokkum. Hin eiginlegu Blaðamannaverðlaun ársins 2015 hlaut Sunna Ósk Logadóttir á Morgunblaðinu fyrir umfjöllun um lífið í flóttamannabúðum í Líbanon. Verðlaun fyrir umfjöllun ársins hlutu Gísli Einarsson, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Karl Sigtryggsson og Ragnar Santos hjá Ríkisútvarpinu, einnig fyrir umfjöllun um flóttamannavandann. Snærós Sindradóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, fékk verðlaun fyrir viðtal ársins, sem var við eftirlifanda í fjölskylduharmleik. Loks fékk okkar gamli kollega Magnús Halldórsson verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku, en hann skrifaði í Kjarnann um sölu á hlutum Landsbankans í Borgun.

* * *

Í þessum dálki hefur áður verið efast um gildi Blaðamannaverðlauna BÍ, bæði almennt og vegna einstakra verðlaunaveitinga, sem sumar hafa orkað mjög tvímælis. Það auðveldar málið sjálfsagt ekki, að þó að hver sem er megi tilnefna umfjöllun og fjölmiðlafólk til Blaðamannaverðlauna, þá er raunin oftast sú, að það eru fjölmiðlarnir sjálfir, sem senda inn eigin tilnefningar til verðlauna. Bæði sjálfsagt af faglegum metnaði og í kynningarskyni.

Að þessu sinni voru fæstar (óvenjufáar!) tilnefningarnar líklegar til þess að valda deilum, en þó má nefna að að það virðist gæta ákveðinnar tilhneigingar til þess að veita verðlaun fyrir að fjalla um „verðug“ málefni. Með því er fjölmiðlarýnir alls ekki að gefa til kynna að verðlaunahafarnir hafi verið óverðugir eða að umfjöllunarefnið skipti engu máli. En það er ekki vandalaust að finna hófið í því.

* * *

Nú mætti enn finna að því að blaðamenn séu að verðlauna hverjir aðra (þó ekki hálft jafngalið og þegar blaðamenn veita viðtöku viðurkenningum ráðuneyta fyrir vinsamlega umfjöllun). Látum það vera í bili, en það felst sérstakur vandi í þeim nafnbótum sem öðrum. Þetta sáu menn fyrir ekki löngu, þegar það var nefnt sérstaklega í umræðu um tilteknar fréttir og fjölmiðil, að þar væru nú verðlaunablaðamenn í spilinu, líkt og þá þyrfti eða mætti ekki ræða málið meir!

* * *

Ein athugasemd við tilnefningarnar þó:

Meðal þeirra þriggja tilnefninga, sem komust í „undanúrslit“ dómnefndarinnar, var umfjöllun Inga Freys Vilhjálmssonar í Stundinni um fjárreiður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. (Um hana hefur áður verið fjallað hér og rétt að minna lesendur á að höfundur og ráðherra eru gamlir skólabræður.)

Dómnefndin rökstuddi tilnefningu sína svo:

Fyrir afhjúpandi umfjöllun sína um fjárhagsleg tengsl Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og eignarhaldsfélags hans OG Capital við fyrirtækið Orka Energy. Í ljós komu verulegir hagsmunaárekstrar vegna samstarfssamnings íslenskra og kínverskra stjórnvalda í orkumálum sem Orka Energy var aðili að og ráðherrann ritaði undir.

Þar endurómar dómnefndin afstöðu Inga Freys til málsins, sem í besta falli má kalla hrapallegan misskilning, en Ingi Freyr hefur haldið fram gegn betri vitund.

Nefndin étur það upp að gerður hafi verið samstarfssamningur, sem ekki er rétt, eins og áður hefur komið fram. Gagnvart kínverskum stjórnvöldum var undirrituð viljayfirlýsing, sem er allt annar hlutur, eins og lesendur Viðskiptablaðsins þekkja vel: samningar fela í sér skuldbindingar og rétt, viljayfirlýsingar ekki. Jafnframt hefur Ingi Freyr litið hjá því að sú fróma viljayfirlýsing var unnin af orkumálastjóra, utanríkisráðuneytinu og kínverska vísindamálaráðuneytinu, samkvæmt öðru samkomulagi og eldra um samvinnu Kínverja og Íslendinga á sviði vísinda og orkutækni.

Allt þetta hefur komið opinberlega fram og eyðir samsæriskenningu rannsóknarblaðamannsins þagmælska. Og ónýtir þessa einkennilegu fullyrðingu dómnefndarinnar um „verulega hagsmunaárekstra“. Nú verður að vona að hún stafi aðeins af hrekkleysi, en það vekur aðrar spurningar um kostgæfnina í dómvörslunni.

* * *

Samt hafði hún ærnar ástæður til þess að treysta fullyrðingum Inga Freys varlega. Það er slæmt þegar blaðamenn verða háðir heimildamönnum sínum, en Ingi Freyr hefur áður orðið uppvís að því að fara í pólitískan hefndarleiðangur að pöntun spillts embættismanns, en aldrei gert þau mál upp við lesendur sína.

Fjölmiðlarýnin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 3. mars síðastliðinn.