Upphaflega ætlaði ég að skrifa um skýra valkosti í komandi kosningum: í þeim mun valið standa á milli þeirra sem styðja leyndarhyggju annars vegar og hins vegar þeirra sem vilja uppræta fátækt á Íslandi. En þar sem ég sit afar áhugaverða ráðstefnu þar sem meðal annars er fjallað um hvernig svokölluð fjártækni (e. fintech) er í þann mund að umturna fjármálaþjónustu í Evrópu leiði ég hugann að öðrum hlutum.

Íslensk stjórnmál hafa einkennst af pólitískum óstöðugleika undanfarin ár. Annað einkenni á þeim um þessar mundir er að þingstörfin eru ekkert sérstaklega skilvirk. Vafalaust eru tengsl þarna á milli. Langir og metnaðarfullir þingmálalistar eru lagðir fram en lítið gerist. Sumir kunna að fagna því. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sum mál verður ekki hjá komist að leiða í lög vegna aðildarinnar að hinum sameiginlega markaði.

Á vettvangi ESB hefur fjöldi viðamikilla tilskipana verið samþykktur á undanförnum árum en í mörgum veigamiklum tilfellum er innleiðing þeirra skammt á veg komin. Hér er um að ræða tilskipanir sem umbreyta innstæðutryggingakerfi fjármálamarkaða, efla neytendavernd í verðbréfaviðskiptum og treysta persónuvernd.

Þá þurfa íslensk stjórnvöld að innleiða tilskipun sem meðal annars opnar fyrir aðgengi þriðju aðila að greiðslu- og bankakerfum fjármálafyrirtækja (PSD2) og gerir viðskiptavinum þeirra kleift að taka móti eigin fjárhagsupplýsingum og miðla þeim áfram til þriðju aðila (GDPR). Þetta síðarnefnda myndar grunn sem margir spá að muni valda straumhvörfum í fjármálaþjónustu og samhliða örri tækniþróun auka samkeppni fjármálamarkaði til muna neytendum til góða.

Íslensk fjármálafyrirtæki starfa á hinum sameiginlega markaði. Hægagangur við innleiðingu tilskipana sem um þann markað gilda geta skaðað íslensk fyrirtæki sem þurfa á endanum að starfa eftir þeim. Það getur grafið undan samkeppnishæfni hagkerfisins í hinu evrópska samhengi.

Höfundur starfar sem sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.