*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Örn Arnarson
9. mars 2018 15:43

Fögnum fjölbreytileikanum

Það ætti að vera fagnaðarefni þegar íslenskt efnahagslíf dregur til sín hæfileikafólk sem eftirspurn er eftir um allan heim.

Haraldur Guðjónsson

Í síðustu viku var birt frétt um samanlögð laun allra framkvæmdastjóra viðskiptabankanna auk bankastjóra. Um er að ræða laun 26 lykilstjórnenda og samtals námu þau um milljarði í fyrra. Þetta gera ríflega þrjár milljónir á mánuði en rétt er að taka fram að hér er um að ræða laun og launatengd gjöld. Til þess að gera þetta allt saman tortryggilegra var því slegið fram að hér væri um að ræða 40% hækkun frá árinu 2013. Það er svipuð hækkun á launavísitölunni á sama tímabili.

Þessi frétt var sögð í samhengi við mögulega uppsögn kjarasamninga og leiddi til töluverðra jarðskjálfta í heimi álitsgjafa. Sá sem þetta ritar heyrði oftar en einu sinni álitsgjafa í fjölmiðlum ræða um að „þeir vissu nú ekki til að það væri eftirspurn eftir íslenskum bankamönnum erlendis“.

Hún er eftir sem áður til staðar. Lykilstarfsfólk fjármálafyrirtækja sótti sér ekki nám í Bankamannaskóla Íslands. Þeir sem stýra íslenskum fjármálafyrirtækjum eru fjölbreyttur hópur af fólki sem hefur sótt sér langskólanám á sviðum raunvísinda og hugvísinda við marga af fremstu háskólum heims. Verkfræðingurinn sem stýrir áhættustýringu íslensks banka, svo dæmi sé tekið, getur auðveldlega vent kvæði sinu kross og hafið störf á nýjum alþjóðlegum vettvangi. Það sama gildir um þá sem hafa minni starfsreynslu.

Það ætti að vera fagnaðarefni þegar íslenskt efnahagslíf dregur til sín hæfileikafólk sem hefur áður sótt sér nám erlendis vegna þeirra tækifæra sem hér er að finna. Sem betur fer er það svo að íslensk fjármálafyrirtæki ásamt öflugum fyrirtækjum í öðrum geirum gera einmitt það. Vonandi verður áframhald á því.

Sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.