Það er oft nefnt sem eitt af þjóðareinkennum Íslendinga að tilfinningaskali okkar sé þrengri heldur en hjá flestum öðrum þjóðum. Rétt eins og hitastigið á Íslandi sveiflast varla meira en tíu eða tólf gráður frá núlli er eins og einhver fyrirstaða sé í vegi ofsagleði og -hryggðar hjá landsmönnum. Eða sumir segja það allavega.

Það hefur mikið reynt á efri mörk þessa skala undanfarna daga í tengslum við Evrópumót karla í knattspyrnu. Þegar svo virðist sem gleðin í almenningsumræðunni hafi náð ákveðnu hámarki koma bara nýir og nýir hápunktar, með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þá sem lýsa sýningunni.

Hvernig á Fréttablaðið til dæmis að haga forsíðu sinni ef við vinnum Frakkland á sunnudaginn? Forsíða blaðsins á þriðjudaginn, daginn eftir sigurinn á Englandi, var algjörlega þakin mynd af fagnandi landsliðsmönnum ásamt nafni blaðsins og fyrirsögn, en blái og rauði hausinn sem alltaf er á forsíðunni fékk að víkja.

Blaðið getur kannski haft forsíðufyrirsögnina í hástöfum svona til að hrista aðeins upp í fólki. En það er reyndar búið að gera það. Kjarninn notaði fyrirsögnina „ÍSLAND VANN ENGLAND!“ um daginn. Kannski má stækka stafina og fjölga upphrópunarmerkjum. Það kemur í ljós.

Það lýsir líka stemmingunni í þjóðfélaginu að nokkrum sinnum á undanförnum dögum hefur það gerst að fyrsta fréttin í aðalfréttatíma RÚV hefur verið um fótbolta, jafnvel önnur fréttin líka. Þegar fréttamat sjálfs Ríkisútvarpsins er orðið þannig vitum við að eitthvað sögulegt er í gangi.

Eftir sigurinn á Englandi á mánudag varð ég vitni að tugum, ef ekki hundruðum manna dansa kónga á gatnamótum Bankastrætis og Ingólfsstrætis við dynjandi bumbuslátt. Ég legg hér með til að fagnaðarlæti af þessum toga verði að reglulegri viðburði en áður. Það er kominn tími til að víkka út þennan tilfinningaskala, einkum og sér í lagi upp á við.