Á marga mælikværða mælt getur Reykjavíkurborg gert mun betur. Biðlistar eru einn þeirra, hvort sem er í leikskóla eða vegna félagslegs húsnæðis. Þeir eru langir. Annar mælikvarði er árangur í skólastarfi, en lesskilningi hefur hrakað á síðasta áratug. Svo er það sorgleg staðreynd að skuldir borgarsjóðs hafa vaxið hratt á mesta hagvaxtarskeiði lýðveldisins. Allt eru þetta viðvörunarljós um að hægt sé að gera betur.

Sjálfstæðari skóla
Skólarnir eru einn stærsti og einn allra mikilvægasti þáttur í starfsemi borgarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn hefur lagt fram tillögu um að jafna aðstöðu sjálfstæðra skóla við borgarrekna skóla. Valfrelsi eykur gæði, en veitir líka aðhald. Það á ekki síst við í skólamálum. Sveigjanleiki í skólastarfi verður ekki til af sjálfu sér. Til þess þarf að taka af skarið. Við getum virkjað mikinn kraft í skólasamfélaginu með því að treysta skólastjórnendum betur og veita starfsfólki og börnum valkost. Því miður hefur núverandi meirihluti ekki haft kjark til að samþykkja þessa vegferð, en við munum fylgja þessu eftir af fullum þunga.

Betri rekstur í borginni
Stjórnkerfi borgarinnar er bæði þungt og kostnaðarsamt. Miðlæg stjórnsýsla borgarinnar kostar hátt í fjóra milljarða á ári og þar af er skrifstofa borgarstjóra um 800 milljónir á ári þegar allt er talið. Stórt stjórnkerfi tekur svo að sér hin ólíklegustu verkefni með misjöfnum árangri. Um það vitna nýleg dæmi eins og fjárfesting í endurgerð bragga fyrir meira en fjögur hundruð milljónir og verkefni án útboðs fyrir hundruð milljóna króna á fyrri hluta þessa árs. Þrátt fyrir að skattar séu í lögbundnu hámarki safnar borgarsjóður tugum milljarða í skuldir í sjálfu góðærinu. Á sama tíma borgar ríkið niður skuldir sínar hratt. Hér er ekki mikið svigrúm til að búa í haginn er því slotar. Hér þarf breyttar áherslur.

Útsvarsgreiðendur flytja annað
Hátt húsnæðisverð í borginni hefur smitað út frá sér um allt suðvesturhornið. Há gjöld, skortur á hagstæðum byggingarlóðum og þungir skilmálar hafa skilað sér í því að meiri fjölgun hefur verið á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Þessi dreifing byggðar veldur síðan þyngri umferð, en verra er að tekjugrunnur borgarinnar veikist. Þegar fáir valkostir eru í boði flytur fólk annað, ekki bara út af því að hafa ekki efni á þeim íbúðum sem eru þó byggðar. Heldur ekki síður vegna þess að þeir sem hafa efni á myndarlegum húsum fá ekki að byggja þau í borginni. Fyrirtæki hafa líka flust annað vegna þess að lóðir fyrir þau eru einfaldlega ekki í boði í borginni. Fólk fylgir fyrirtækjum og tekjugrunnur borgarinnar þynnist út. Það er ekki nóg að lifa á hvalreka í formi einskiptis byggingarréttargjalda. Þessu þarf að snúa við svo borgin geti staðið undir fjárfestingum sínum.

Styðjum fólk til sjálfstæðs lífs
Félagslega kerfið í borginni annar ekki því sem ætlast er til af því. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa vaxið þrátt fyrir aukinn kaupmátt. Snarhækkað leiguverð er hluti af orsökinni. Svo er það hitt: Í stað þess að koma sem flestum til sjálfshjálpar lenda fjölmargir í þeirri fátæktargildru að geta ekki aflað sér aukinna tekna nema vera refsað fyrir. Jafnvel verið úthýst og misst húsnæði sitt. Húsnæðislausum hefur fjölgað mikið og er ljóst að mikið er að í húsnæðismálum borgarinnar. Mun fleiri búa í foreldrahúsum en í nágrannalöndunum. Þetta er ekki eðlilegt ástand, en þessu er unnt að breyta. Við viljum að borgin geri fólki betur kleift að eignast eigið heimili. Bótakerfi er engin allsherjarlausn. Það sem þarf er að almenn umgjörð sé léttari og velferðarkerfið hafi skýra stefnu um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.

Styrkjum tekjugrunninn
Á meðan kerfið þyngist minnka tekjur borgarinnar af útsvari vinnandi fólks sem flytur annað. Þá hækka skuldir og gera reksturinn enn þyngri. Þetta er vítahringum í góðæri sem verður mun þyngri í harðæri. Nú ætti borgin að vera að hagræða í rekstri sínum og laða að íbúa sem vilja búa í Reykjavík. Bjóða fyrirtækjum aðstöðu í stað þess að tapa þeim annað. Bjóða fólki upp á val. Þannig getur borgin verið betri. Okkur öllum til hagsbóta.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík