Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Hvað kemur það fjölmiðlum við og hvers vegna er sérstaklega verið að fjalla um geðheilbrigðismál í fjölmiðlapistli sem þessum. Jú það er vegna þess að í tillögunni er vottur af forræðishyggju í garð fjölmiðla og leiðinda pólitískri rétthugsun.

Í tillögunni, sem þegar hefur farið í gegnum fyrri umræðu, segir meðal annars: „Settar verði fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um hvernig unnt er að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að alið sé á fordómum."

Samkvæmt tillögunni á að setja á fót starfshóp, sem mun hafa það hlutverk að draga línu í sandinn. Starfshópurinn á leita fyrirmynda erlendis og síðan á dreifa þessum leiðbeiningum til íslenskra fjölmiðla. Í mínum huga eru leiðbeiningar fyrst og fremst einhvers konar leiðsögn eða ábendingar um hvernig eigi að gera eitthvað öfugt við lög eða reglur þar sem brot varða viðurlögum. Þess vegna kemur á svolítið óvart þegar í þingsályktunartillögunni segir að þessum leiðbeiningum verði ekki bara dreift til fjölmiðla heldur „fylgt eftir með markvissum hætti". Hvað þýðir þetta eiginlega?

Ef fjölmiðlum er ekki treyst til að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að hafa til þess leiðbeiningar frá stjórnvöldum af hverju að stoppa þar. Af hverju eru ekki búnar til leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um allt mögulegt, alla málaflokka?

Ég hef verið í blaðamennsku í hátt í 20 ár. Á þessum tíma hef ég unnið með æði mörgum blaðamönnum en aldrei rekist á neinn sem hefur í sínum skrifum, leynt eða ljóst, alið á fordómum gagnvart einhverjum hópi. Blaðamannafélag Íslands hefur siðareglur og hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið þær reglur getur kært til siðanefndar Blaðamannafélagsins.

Margir fjölmiðlar hafa líka sínar eigin siðareglur og það er því ljóst að blaðamenn eru mjög meðvitaðir um ábyrgð sína. Starfshópurinn getur því sparað sér þá vinnu að búa til einhverjar leiðbeiningar. Ef talið er að blaðamaður hafi brotið mjög alvarlega af sér í starfi þá eigum við lög þar sem tekið er á ærumeiðingum og öðru slíku. Þau lög nefnast hegningarlög.

Þeir sem tjösluðu saman þessum kafla um geðheilbrigði og fjölmiðla vilja ábyggilega vel. Málið er bara að það er stórhættulegt ef einhvers konar pólitísk rétthugsun af þessu tagi nær að teygja anga sína svona langt. Tjáningarfrelsið er stjórnarskrárvarið enda ein mikilvægustu réttindi okkar allra, ekki bara fjölmiðla.