Sænski tölfræðingurinn og læknirinn Hans Rosling lést úr krabbameini á þriðjudag, líkt og víða var greint frá. Ríkisútvarpið hafði það helst um Rosling að segja að hann hefði „trúað á betri heim“, sem auðvitað gæti ekki verið fjarri sanni.

Ævistarf Roslings snerist einmitt um að menn létu sér ekki trú eða ætlun nægja, heldur yrðu staðreyndirnar að tala sínu máli.

Þar beindi hann máli sínu ekki síst að fjölmiðlum, sem endurómuðu og útbreiddu ýmsar viðteknar skoðanir á heiminum – hvort sem væri vegna fordóma, gagnrýnisleysis eða vanþekkingar – sem reyndust svo ekki á rökum reistar.

* * *

Falskar fréttir hafa verið mönnum vinsælt viðfangsefni síðustu vikur með sérstakri tilvísan í kosningabaráttu og málflutning Donalds Trump og hans fólks.

Nú er rétt að rifja upp að það var ekki Trump sem færði lygina í heiminn. Það má finna dæmi um ósannsögli og ósvífni í stjórnmálum allt til árdaga lýðræðisins í Aþenu, framganga fjölmiðla hefur verið með ýmsu móti í gegnum söguna og fleiri slík líkindi úr fortíð mætti nefna við okkar einstæðu tíma.

Afstæðishyggja gagnvart staðreyndum er heldur ekki ný af nálinni, hvorki í stjórnmálum né fjölmiðlum. Í kalda stríðinu hneigðust vinstrimenn til þess að leggja lýðræðið og alræðið sitt hvoru megin járntjalds að jöfnu, en þegar það svo féll tók póstmódernisminn við þar sem staðreyndir máttu víkja fyrir túlkun.

Það gerðist ekki aðeins í fílabeinsturni fræðasamfélagsins, heldur einnig í fjölmiðlum. Þar máttu ískaldar fréttafrásagnir þoka undan fréttaskýringum og upplifun. Þess gætir ekki síður á öld smelludólga og þetta hafa þeir, sem sjá sér hag í útbreiðslu falsfrétta, notfært sér.

* * *

Hinir hefðbundnu fjölmiðlar eru ekki fyllilega saklausir heldur. Nefna mætti margvísleg dæmi um hvernig þeir hafa fært fréttir í stílinn, svo stappar nærri falsi.

Það bætir heldur varla úr skák þegar frægt fjölmiðlafólk, eins og Jim Rutenberg á New York Times og Christiane Amanpour á CNN, segist ófært um að flytja hlutlausar fréttir á dögum Dónaldsins.

Nú eru samskipti forsetans og fjölmiðla auðvitað efni í langan bálk, en hann virðist vilja ætla þeim hið eiginlega stjórnarandstöðuhlutverk vestra. Ósagt skal látið hversu skynsamlegt það er, en hitt blasir við að fjölmiðlunum er vandi á höndum.

Gott dæmi eru ásakanir forsetans um að fjölmiðlarnir hafi ekki gert hryðjuverkafregnum nógu hátt undir höfði. Miðlarnir mótmæltu en Hvíta húsið sendi frá sér hroðvirknislega unninn lista yfir 78 misalvarleg hryðjuverk undanfarin þrjú ár.

Svo fjölmiðlarnir fóru yfir hann og sýndu fram á að þeir hefðu víst fjallað um flest atvikin í verulegum mæli. „Aha, en ekki öll,“ svara skjaldsveinar Trumps og miðlunum vefst tunga um tönn.

Og þá eru þeir um leið búnir að verja miklu rými í að undirstrika hryðjuverkaógnina í sama mund og ferðatilskipun Trumps er til umfjöllunar.

* * *

Silfrið hóf göngu sína á nýjan leik um helgina og fór alveg ágætlega af stað. Páll Magnússon, alþingismaður Suðurkjördæmis (og fyrrverandi útvarpsstjóri), fann þó að því á Facebook að þar hefði Reykvíkingurinn Egill Helgason fengið til sín fjóra Reykjavíkurþingmenn til þess að ræða helstu málefni dagsins í 37 mínútur – fyrirkomulag áfengissölu og innræti Bandaríkjaforseta.

Svo hefði smámál eins og sjómannaverkfallið verið afgreitt á 2 mínútum og 49 sekúndur. Páll spurði:

Er það ofsögum sagt að veröldin lítur öðruvísi út séð úr 101 Reykjavík en frá öðrum sjónarhólum?

Þetta er ekki úr lausu lofti gripið hjá Páli. Helstu fjölmiðlar landsins eru allir á höfuðborgarsvæðinu; þar er þorri fjölmiðlamanna sömuleiðis. Líkt og meirihluti fólks, fyrirtækja og stjórnsýslu. Það er því varla skrýtið þó það halli eitthvað á landsbyggðina, en þetta var fullmikið af því góða.

Þetta er hvorki nýtt né séríslenskt vandamál, þetta er raunin í velflestum Vesturlöndum. Hefur raunar verið sérstakt athugunarefni upp á síðkastið, þar sem fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa einangrast.

Sumpart ræðir þar um huglægt mat, en rannsóknir í Bandaríkjunum hafa einnig leitt í ljós að netvæðing fjölmiðlunar þar í landi hefur (þvert á það sem margir spáðu að myndi gerast) ýtt mjög undir landfræðilega samþjöppun fjölmiðla í stórborgum á ströndunum tveimur. Sama virðist upp á teningnum víðar.

Sú þróun er löngu afstaðin á Íslandi, en þess vegna er þeim líka nauðsynlegt að vega meðvitað upp á móti því, með fréttariturum, ritstjórnaráherslum og vali á viðmælendum.