Fréttir af bónusgreiðslum í Kaupþingi ollu miklum úlfaþyt, eins og við mátti búast á Íslandi árið 2016. Tuttugu manna hópur sem starfar hjá eignarhaldsfélagi Kaupþings getur fengið úthlutað samtals tæplega 1,5 milljörðum króna í bónus sem verður greiddur út ekki síðar en í lok apríl 2018.

***

Meðal þeirra sem gagnrýndu ákvörðun Kaupþings var Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, sem sagði þessa fjárhæð hærri en laun allra starfsmanna spítalans á einu ári.

***

„Ég set hana inn af því að mér finnst þetta svo hróplegt misræmi. Hér vinna 200 manns mikið starf, bera
mikla ábyrgð og leggja sig hart fram en engum dettur í hug að fara fram á einhverja bónusa, hvað þá hundruð milljóna,“ segir Ásgeir í samtali við Mbl.is.

***

Það er merkilegt að læknir skuli setja sig upp á móti því að hópur útlendinga, þ.e. kröfuhafa Kaupþings, vilji ólmir greiða nokkrum Íslendingum háar fjárhæðir. Þessar greiðslur – ef til þeirra kemur – munu hafa jákvæð áhrif á gjaldeyrisflæði til og frá landinu og munu skila ríkissjóði myndarlegum tekjum í formi skattgreiðslna.

***

Þennan skatt er svo hægt að nota til að greiða Ásgeiri og kollegum hans laun.

***

Ýmis málefnaleg rök er hægt að færa fyrir því að bónusgreiðslur í fjármálageiranum geti falið í sér óheppilega hvata. Það fer hins vegar allt eftir því hvernig þær eru saman settar og skipulagðar. Hvað varðar frágang á þrotabúi Kaupþings á Týr erfitt með að sjá að bónusgreiðslurnar geti valdið nokkurri hættu. Kröfuhafar vilja einfaldlega búa til kerfi sem umbunar starfsmönnum fyrir að ganga hratt og vel til verks. Mörg dæmi eru um að skiptastjórar þrotabúa dragi lappirnar í að ljúka skiptum til að hagnast meira sjálfir.

***

Það er engin ástæða til að agnúast út í greiðslur sem þessar, því enginn Íslendingur tapar á þeim. Vissulega eru þarna nokkrir starfsmenn Kaupþings sem hafa möguleika á því að efnast verulega, en hver tapar á því? Ekki nokkur maður. Þarna telur Týr að yfirlæknirinn hafi látið öfundina ráða för í skrifum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .