Sumir vilja aldrei lækka skatta. Aldrei er rétti tíminn. Grunnstoðir munu bresta ef fjármunir flæða ekki inn á ríkisreikninginn frá skattgreiðendum og ójöfnuður mun aukast, svo fáeinar heimsendaspár séu nefndar. Þessi þjóðsaga er fádæma lífseig.

Í síðustu viku var birt greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Kom þar fram að tekjur ríkisins jukust töluvert. Þar af voru skatttekjur og tryggingagjöld um 4,7% umfram áætlun. Ef litið er á skatttekjur frá einstaklingum sérstaklega þá jukust þær um 21% mið¬að við sama tímabil árið 2015.

Það sem vafalítið kemur einhverjum á óvart í þessu samhengi er að um síðustu áramót lækkuðu skatthlutföll 1. og 2. þreps; það fyrra um 0,17 prósentustig og það seinna um 1,39 pró¬ sentustig. Væri áðurgreind þjóðsaga sönn, mætti ætla að skatttekjur ríkisins frá einstaklingum hefðu dregist saman á tímabilinu. Því fer hins vegar fjarri.

Þó að undirrituð sé ekki hrifin af því að stjórnmálamenn hafi fengið meiri fjármuni frá skattgreiðendum til að eyða í vitleysu, þá felast í fyrrgreindu uppgjöri tvær jákvæðar fréttir. Í fyrsta lagi má ætla gott svigrúm til að lækka skatta enn frekar. Peningar vaxa ekki á trjám heldur er þeirra aflað af fólki sem til þeirra hefur unnið – oft og tíðum hörðum höndum.

Séu skatttekjur verulega umfram það sem ráðgert var og þörf er á, hlýtur það að vera ófrávíkjanleg krafa að skattar séu lækkaðir enn frekar. Í öðru lagi má ætla að fyrrgreint uppgjör sýni að allt bölsót um að skattalækkanir dragi úr tekjum ríkissjóðs sé að engu hafandi. Háir skattar letja fólk til vinnu og draga úr fjárfestingum, auk þess sem skattaundanskot í slíku umhverfi eru tíðari. Við svo búið verður ríkið af tekjum.

Engar heimsendaspár munu þannig rætast við lækkun skatta, þrátt fyrir lífseigar þjóðsögur um annað.