Það er dimmt og kalt úti. Nóvember er svipaður janúarmánuði nema örlítið skárri. Í nóvember má hugga sig við tilhugsunina um jólaljós og smákökur. Í janúar er lítið sem ekkert framundan nema myrkur. Margir vilja bölva þeim sem byrja að skreyta í nóvember og eru komnir með Létt-Bylgjuna í botn á vinnustaðnum um miðjan mánuðinn. Ég tek auðvitað alveg þátt, já í báðu. Ég bölva þessum kjánagangi með vinnufélögum og hlæ að þessu en fer svo rakleiðis heim að baka smákökur og hlusta á Svölu Björgvins syngja „Ég hlakka svo til.“ Þetta er allt hluti af sjálfsbjargarviðleitninni. Eitthvað þarf að gera til að lifa af þetta skammdegi og hver hefur sitt.

Síðan er annað sem má gera. Það er að fara bara hreinlega í burtu. Stinga skammdegið af í eitthvað framandi og spennandi. Koma svo bara aftur beint í jólafjörið. Ef það er ekki mögulegt að stinga af þá er um að gera að vera andlega fjarverandi í smá tíma og ímynda sér einhverja paradís. Það má líka kaupa bjartsýnislampa en þeir eru alveg efni í annan pistil. Í þessu Eftir vinnu blaði er ferðinni haldið til Parísar. Já það er svosem ekkert svakalega heitt þar núna en ljósin eru fleiri. Líka örugglega enn meiri líkur á að hitta Svölu Björgvins þar.

Við förum yfir eitt af mörgu sem er dásamlegt í París sem er maturinn sem þar er á boðstólnum. Ógrynni er af skemmtilegum veitingastöðum og erfitt að lýsa með orðum makkarónugleðinni í Ladurée. Það er alltaf gaman að hugsa um mat, sérstaklega þegar styttist í jól. Í blaðinu ræðum við meira að segja við lögfræðing sem hélt til Parísar í leit að nýju ævintýri í matreiðslunámi. París á því hug okkar í þessu blaði. En aftur í myrkrið og kuldann. Við þurfum að klára þennan nóvembermánuð áður en frábæri desembermánuður kemur. Þá þarf að muna að gera allt það skemmtilega sem Ísland býður upp á. Ostaát er til dæmis tilvalið á þessum tíma enda þurfa allir á smá auka einangrun að halda vegna kulda. Ég myndi mæla með að allir ættu makkarónur í frysti en eftir margar erfiðar og frústrerandi tilraunir þá er miklu gæfulegra að rölta við í Matarkistunni og birgja sig upp. Ekki láta neinn blekkja þig með því að það sé hagkvæmt að baka þetta sjálfur. Að lokum þarf bara að rölta niður Laugaveginn með makkarónur í annarri hendi og brauð í hinni og láta sem laugavegurinn sé þín eigin Champs-Élysées.