Hvarf Birnu Brjánsdóttur er mönnum enn í fersku minni, en það hefur verið rifjað upp undanfarna daga eftir því sem réttarhaldinu í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness vindur fram.

Einn angi þess kemur fjölmiðlum sérstaklega við. Þegar böndin tóku að berast að Thomas Møller Olsen, skipverjanum á Polar Nanoq, sem er ákærður fyrir að hafa myrt Birnu, var skipið komið hálfa leið til Grænlands, en eins og menn muna spurðist töluvert út um gang rannsóknarinnar jafnóðum, bæði í fjölmiðlum og félagsmiðlum. Áður en lögreglan gat komið mönnum í borð um skipið og snúið því aftur til íslenskrar hafnar gerðist það hins vegar að hinn grunaði fékk skilaboð frá íslenskum blaðamanni á Facebook Messenger (ekki SMS, líkt og upphaflega sagði í fréttum).

Fram kom í viðtölum við skipverja Polar Nanoq að Thomas Møller Olsen hefði orðið svo taugaóstyrkur eftir að hafa fengið skilaboðin að hann hafi misst alla matarlyst og verið gefið róandi. Ekki liggur fyrir hvað kom fram í skilaboðum blaðamannsins, en telja verður sennilegt að við þau hafi sakborningurinn orðið áskynja um grun lögreglu.

***

Þetta er alvarlegt mál. Ríkisútvarpið hafði það eftir Grími Grímssyni, yfirlögregluþjóni sem stýrði rannsókn á hvarfi Birnu, að tilraun blaðamannsins til að leita upplýsinga hafi verið ámælisverð og hefði getað valdið sakarspjöllum, þó hann teldi raunar að svo hefði ekki verið í þessu tilviki.

Blaðamaðurinn hefur enn ekki verið nafngreindur. Fram hefur komið hjá saksóknaraembættinu, að hann verði síðar leiddur fyrir dómara sem vitni, en hann hefur ekki enn fengið dómskvaðningu.

Fjölmiðlarýnir tekur fram, að hann veit ekki hvaða kollega á þarna í hlut, en maður á erfitt með að verjast þeirri tilhugsun að fjölmiðlar væru ákafari við að upplýsa nafn hans ef þær ræddi um lögmann, bloggara, Jón eða Gunnu úti í bæ.

***

Hér er á ferðinni mikilvægt og merkilegt siðferðislegt álitamál, hver sem í hlut á. Er það rétt, rangt eða verjandi hjá blaðamanni að leita upplýsinga með þessum hætti?

Blaðamaðurinn gæti sagt að svo miklar upplýsingar hefðu þegar birst um málið á opinberum vettvangi, að yfirgnæfandi líkur hefðu verið á því að þær hefðu borist til skipsins og hins grunaða. Hann hefði því aðeins verið að reyna að verða fyrstur til að ná í hann, verða fyrstur með þá frétt. Ljóst væri að hinn grunaði væri ekki í neinni stöðu til þess að flýja réttvísina, fastur um borð í skipi úti á Ballarhafi.

Hann gæti og spurt á móti hvort það ætti að halda aftur af dugandi blaðamanni hversu svifasein lögreglan væri, fréttaþorsta almennings yrði að svala og svo framvegis.

Þessi svör eru vel tæk í umræðunni en þegar öllu er á botninn hvolft þá halda þau ekki vatni. Hvorki svona lagalega né á forsendum blaðamennskunnar.

Blaðamenn mega ekki frekar en aðrir grípa fram í fyrir hendurnar á lögreglu við rannsókn sakamála eða gera nokkuð það, sem getur spillt rannsókninni eða hjálpað sakborningi undan réttvísinni. Það er hinn lagalegi hluti málsins.

Þar fyrir utan verða blaðamenn ævinlega að gæta þess að þeir séu að segja fréttirnar, ekki að skapa þær. Með því að hafa samband við grunaðan mann, sem ekki veit að lögreglan er komin á sporið, er blaðamaðurinn ekki lengur að leita upplýsinga til þess að geta lýst atvikum og framvindu, heldur er hann beinlínis farinn að hafa áhrif á atburðarásina.

Með því að gera hinum grunaða viðvart gat hann hæglega spillt málinu með beinum hætti. Sakborningurinn hefði getað losað sig við möguleg sönnunargögn, samræmt framburð sinn með öðrum og þar fram eftir götum.

Auðvitað var mögulegt að hinn grunaði hefði frétt af því með öðrum hætti að böndin bærust að sér, en það var samt sem áður blaðamaðurinn sem hafði þetta frumkvæði og það var a.m.k. ekki honum að þakka að ekki urðu sakarspjöll, sé það rétt metið hjá Grími Grímssyni.

Gleymum ekki heldur hinu að hinn grunaði átti eina flóttaleið af skipinu og raunar úr þessari jarðvist.

Hvernig sem á er litið, þá var það einstaklega óvarlegt og óverjandi hjá blaðamanni að leita fregna með þessum hætti við þessar aðstæður.

***

Efnahagsfréttir Ríkisútvarpsins sviku ekki frekar en fyrri daginn:

Fleiri kaupa og selja gjaldeyri á Íslandi eftir að höft voru afnumin.

Ókei.