Í mars og apríl juku erlendir aðilar stöður sínar í ríkisbréfum um 12 milljarða auk þess sem hlutfall vaxtagreiðslna úr landi hefur lækkað í 56%.

Fyrirliggjandi hagtölur benda síður til mikils samdráttar í þjóðarútgjöldum á líðandi og næsta ári. Innlend eftirspurn hefur ráðrúm eftir að árlegur hreinn þjóðhagslegur sparnaður hefur verið um 10% af landsframleiðslu frá árinu 2013 samkvæmt Hagstofu Íslands.

Samkeppnisstaða hagkerfisins gagnvart útlöndum fer batnandi eftir að raungengi hefur haldist stöðugt í kjölfar 11% lækkunar á haustmánuðum síðasta árs. Þá fer minna fyrir áhyggjum þeirra sem horfa til greiðslujafnaðar og afgangs af rekstri hins opinbera.

Hrein staða þjóðarbúsins er jákvæð um 10% af landsframleiðslu og liðlega 90 milljarðar króna eru í að þjóðarútgjöld yfirgnæfi vergar þjóðartekjur. Að undanskildu árinu 2015 hefur ríkissjóður verið rekinn með afgangi frá árinu 2014 sem hefur leitt til að virði útistandandi ríkis- og íbúðabréfa hefur lækkað um 380 milljarða króna að raunvirði.

Erlendir aðilar hafa aukið stöðu sína í ríkisskuldabréfum um 12 milljarða króna að nafnvirði frá því að Seðlabankinn lækkaði bindingarhlutfall á fjármagnsinnstreymi 6. mars síðastliðinn. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir að vera meðvitaðir um neikvæð áhrif gjaldþrots Wow air og kyrrsetningu flugvéla Icelandair Group á þjónustujöfnuð í ár.

Annað sem slær þá ekki illa er að erlent eignarhald ríkisbréfa var einungis 16% í lok apríl samkvæmt Lánamálum ríkisins og um 27% ef gert er ráð fyrir að erlendir aðilar haldi öllum erlendum útgáfum ríkissjóðs. Líkt og fjallað var um hér í apríl 2018 hefur til dæmis hlutfallið verið hærra í Noregi og var 63% í mars síðastliðnum samkvæmt Norges Bank.

Þá þekkja þeir að á síðastliðnu ári fóru erlendir aðilar einungis með um 56% af vaxtagreiðslum ríkisbréfa úr landi. Til samanburðar var hlutfallið 77% árin 2012 til 2016.

Fjárfestingarval aðilanna er áhugavert í ljósi niðurstaðna nýlegrar könnunar Seðlabankans þar sem markaðsaðilar vænta að meginvextir lækki um 50 punkta í 4% á öðrum ársfjórðungi. Síðastliðna tvo mánuði hafa þeir aukið mest við sig í stystu óverðtryggðu ríkisbréfunum RIKB 20 0205 og RIKB 22 1026 eða um 9 milljarða.

Að auki vörðu þeir í apríl nærri tveimur milljörðum í stysta verðtryggða flokkinn RIKS 21 0414 – eitthvað sem hefur ekki sést síðan í september 2014.

Skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar sýna að nafnkrafa til 1 árs hafði lækkað um nærri 130 punkta síðastliðinn þriðjudag frá október og 5 til 10 ára um 185 punkta. Fyrir vikið hefur óverðtryggði vaxtaferillinn flast út í 4,2% yfir meðaltíma samkvæmt Kodiak Excel. Gera má ráð fyrir að erlendir fjárfestar einbeiti sér áfram að styttri enda vaxtaferilsins á meðan líftímaálag helst lágt nema þeir hugi að íhvolfunaráhrifum á lengri endanum.

-----

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.