Ýmsar áhugaverðar fréttir bárust í síðustu viku og dettur þá flestum í hug fréttir af kosningum sem voru vissulega áhugaverðar. Okkur bárust hinsvegar þau ánægjulegu tíðindi að utan að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings hefði hækkað lánshæfismat íslensku bankanna í BBB+/A-2. Sú hækkun byggði að mestu á batnandi rekstrarumhverfi bankakerfisins hér heima. Einnig var horft til kröftugs hagvaxtar og lækkandi skuldastöðu fyrirtækja og einstaklinga. Trú erlendra aðila á innlendu efnahagslífi er því að aukast og augljóst að það eru fjölmörg tækifæri framundan nú þegar losað hefur verið um fjármagnshöft. En hverju skiptir hækkun á lánshæfismati og hvaða áhrif hefur hún?

Breytingin kemur sér vel bæði fyrir bankann og viðskiptavini hans. Þróun vaxtaálags á erlendum skuldabréfaútgáfum bankans hefur verið mjög hagstæð upp á síðkastið og ýtir þessi hækkun S&P enn frekar undir þá þróun. Við finnum fyrir aukinni eftirspurn frá erlendum fjárfestum á skuldabréfum bankans sem er mjög ánægjulegt. Sem dæmi má nefna að eftir þessa hækkun er bankinn með sama lánshæfi hjá S&P eins og stórir erlendir bankar á borð við Royal Bank of Scotland og BBVA.   Munurinn á fjármögnunarkjörum bankans erlendis samanborið við þá banka sem við viljum gjarnan bera okkur saman við hefur minnkað hratt undanfarið sem fyllir okkur bjartsýni að kjör okkar í erlendum gjaldmiðlum til okkar viðskiptavina séu að verða að fullu samkeppnishæf.

Skattbyrði banka

Það eru hinsvegar aðrir hlutir sem hafa líka áhrif þegar kemur að verðlagningu til neytenda. Á meðan samkeppni verður sífellt meiri frá lífeyrissjóðum og tæknifyrirtækjum eru bankarnir ennþá að greiða sérstakan bankaskatt. Um leið og við fögnum allri samkeppni teljum við eðlilegt að allir sitji við sama borð svo ekki sé dregið úr möguleikum okkar að bjóða neytendum betri kjör. Bankaskatturinn ásamt stöðugleikaframlagi slitabúa átti að greiða fyrir aðgerð stjórnvalda við að leiðrétta húsnæðislán sem átti að kosta 80 milljarða. Sú upphæð hefur skilað sér og gott betur.

Ef við horfum til nágrannalanda okkar er skattbyrði banka hér fjórum sinnum þyngri. Þessi skattlagning hefur áhrif á verð til neytenda. Þetta mun vonandi breytast í náinni framtíð svo samkeppnisstaðan verði sanngjörn.

Ný reglugerð

Það eru ótal tækifæri á íslenskum fjármálamarkaði. Við höfum einfaldað skipulag bankans til að geta betur tekist á við þær breytingar sem framundan eru. Ný reglugerð Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, PSD2, mun að öllum líkindum taka gildi hér á landi á næsta ári og þá munum við sjá miklar breytingar á fjármálamarkaði. Þetta þýðir að samkeppnin mun aukast enn frekar á næstu árum sem mun skila sér í bættum kjörum til neytenda og því tökum við fagnandi.

Það eru því skemmtilegir en krefjandi tímar framundan. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey kemur fram að bankar geti aukið tekjur sínar af viðskiptabankastarfsemi um allt að 48% ef þeir hlaupa hratt og aðlaga sig breyttu umhverfi. Þeir bankar sem geri það ekki geti hins vegar tapað allt að 35% af viðskiptabankatekjum sínum. Íslandsbanki hefur verið að breytast og mun halda því áfram. Þá skiptir gríðarlega miklu máli að stjórnvöld tryggi að samkeppnisstaðan sé sanngjörn, fyrirtækjum og neytendum í hag, við biðjum ekki um meira.

Höfundur er bankastjóri Íslandsbanka.