Vöntun er á verðtryggðum bréfum með gjalddaga árið 2050 eða síðar. Meðaltími eignasafns erlendra aðila var 2 ár fyrir fimm árum en er nú 7 ár.

Í febrúar árið 2012 var 5 ára verðbólguálag að jafnaði 5,5% en samhliða lækkunarfasa þess í 2,9% síðastliðinn september styttist veginn meðaltími á ríkistryggðu skuldabréfasafni lífeyrissjóðanna. Þannig fór hann úr því að vera rúm 11 ár í um 9 ár þar sem hann hefur haldist undanfarna mánuði. Ef miðað er við 20 ára meðaltíma áfallinna skuldbindinga sjóðanna sést að vaxtaáhætta hefur farið hækkandi vegna aukins misræmis. Til að vinna það upp hafa sjóðirnir meðal annars fjárfest í fasteignalánum til heimila og sértryggð- um skuldabréfum innlánsstofnana.

Hvað varðar þau síðarnefndu er einungis eitt þeirra með lengri meðaltíma en lengsta skráða íbúðabréfið (HFF150644) og það er flokkurinn ARION CB 2 sem er um 80 ma.kr. að markaðsvirði og hefur gjalddaga árið 2048. Með öðrum orðum þá lýsa lífeyrissjóðirnir eftir skráningu verð- tryggðra bréfa með gjalddaga árið 2050 eða síðar. Af 1.514 ma.kr. heildarvirði skráðra ríkistryggðra skuldabréfa eru lífeyrissjóðir eigendur um 870 ma.kr. Samsetning safns þeirra hefur breyst frá árinu 2012 þar sem vægi verðtryggðra bréfa hefur lækkað um tæp fimm prósentustig og er nú 75%. Mest hefur dregið úr vægi íbúðabréfaflokka eða um átta prósentustig þrátt fyrir að sjóðirnir hafi aukið við stöður sínar um 20,5 ma.kr. að nafnvirði ef leiðrétt er fyrir afborgunum.

Hvað einstakan flokk varðar hefur vægið aukist mest á lengsta óverð- tryggða flokknum RIKB 31 0124 eða um tæp fjögur prósentustig. Aftur á móti virðast sjóðirnir hafa einsett sér að minnka stöðuna frá því í júní árið 2015 og hafa losað sig við 0,6 ma.kr. að miðgildi á mánuði síðastliðna 26 mánuði. Aukið vægi skýrist því af lækkun kröfu flokksins úr 6,9% í 5,1% á þessum tæpum fimm árum en sjóðirnir hafa notfært sér áhrif ójöfnu Jensens í flokknum líkt og fjallað var um í Viðskiptablaðinu 2. júlí 2015.

Auðvelt er að falla í pytt þröngsýninnar og skoða einangrað eignasafn lífeyrissjóðanna enda vega þeir 60% af markaðnum. Myndin sýnir hver skoðun annarra fjárfesta hefur verið á rökréttum meðaltíma. Í öllum tilfellum hefur meðaltími eignasafna styst frá árinu 2012 eða um 2 ár að jafnaði nema hjá erlendum fjárfestum þar sem meðaltími lengdist úr tveimur í sjö ár. Skýringuna má aðallega rekja til kaupa Seðlabankans á um 19 mö.kr. í ríkisvíxlum og 16,5 mö.kr. í RIKB 19 0226 af aflandskrónueigendum síðastliðinn mars við afnám fjármagnshafta. Þá hafa erlendir aðilar aukið nettó nafnverðstöðu sína í ríkisbréfum um 2,5 ma.kr. á síðustu fimm mánuðum þrátt fyrir sérstaka bindingarskyldu.

Áhugi þeirra hefur verið mestur á löngu óverðtryggðu flokkunum RIKB 28 1115 og RIKB 31 0124 þar sem þeir hafa aukið stöðu sína í þeim að miðgildi 1,6 ma.kr. í hverjum mánuði. Fyrir vikið er virði safns þeirra nú um 130 ma.kr. Á síðunni hi.is/~boo4 má nálgast viðauka sem inniheldur eignahreyfingar einn, þrjá, sex og tólf mánuði aftur í tímann.

Meðalliftími skuldabréfa frá 2012
Meðalliftími skuldabréfa frá 2012

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.