Hinn 17. september sl. voru liðin 100 ár frá stofnun Verzlunarráðs Íslands. Af því tilefni er hér rifjaður upp stuttur kafli í sögu þess, einkum árin 1983-1985, þegar mörg stefnumál ráðsins náðu fram. Í heild sinni ullu þessar breytingar straumhvörfum í íslensku atvinnulífi og færðu efnahagslífið frá verulegum ríkisafskiptum til þess frjálsræðis sem við nú þekkjum.

Fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar

Í Alþingiskosningunum 1983 hlutu 14 þingmenn Framsóknarflokksins kosningu og 23 frá Sjálfstæðisflokki. Flokkarnir gátu því myndað sterka meirihlutastjórn með 37 þingmönnum af 60. Vegna þingmannafjöldans hefði mátt ætla að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi stjórnina en Steingrímur Hermannsson gerði þingflokki Sjálfstæðismanna tilboð sem tryggði honum starfið. Þeir máttu velja um tvo kosti: Sjálfstæðisflokkurinn fengi forsætisráðuneytið og ráðherraskipan yrði jöfn, fimm og fimm, eða Framsóknarflokkurinn fengi forsætisráðuneytið og Sjálfstæðisflokkurinn sex ráðherra. Sjálfstæðismenn völdu sex ráðherrastóla.

Viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið féllu í hlut Sjálfstæðisflokksins. Verslunarráðið hafði lengi átt gott samstarf við hinn nýja viðskiptaráðherra, Matthías Á. Mathiesen. Tengslin við fjármálaráðherrann, Albert Guðmundsson, voru einnig náin en hann var varaformaður ráðsins frá 1974-1978. Á þinginu 1978 fluttu ráðherrarnir t.d. saman, þá sem þingmenn, frumvarp til laga um samkeppni, verðmyndun og samruna fyrirtækja sem ráðið hafði samið að þýskri og bandarískri fyrirmynd (151. mál). Þær tillögur standa enn í dag framar gildandi lögum um þetta efni.

Frjáls verðmyndun og samkeppni

Flutningur frumvarpsins 1978 var liður í langri baráttu Verzlunarráðsins fyrir skynsamlegri skipan á verðlags- og samkeppnismálum. Á þessum árum hafði verið í gildi samfelld verðstöðvun frá 1. nóvember 1970 til ársloka 1981. Verðlag var þó alls ekki stöðugt á þessum árum. Hámarki náði óstöðugleikinn á árunum 1982 og 1983 þegar verðlag hækkaði um 64% (1982) og 71% (1983) yfir árið.

Frumvarp Verzlunarráðsins ýtti við stjórnvöldum og varð til þess að samþykkt voru ný lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti nr. 56/1978. Stefna þeirra var að verðlagning skyldi vera frjáls þegar samkeppni væri nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Ný ríkisstjórn fékk hins vegar gildistöku laganna frestað og anda þeirra breytt. Hinn 1. janúar 1982 urðu hins vegar þáttaskil í verðlagsmálum. Þá gat Verðlagsráð, með samþykki ríkisstjórnarinnar, fellt verðlagningu vöru- og þjónustu undan verðlagsákvæðum. Sú breyting varð svo á lögunum, í tíð Tómasar Árnasonar sem viðskiptaráðherra, að þá þurfti ekki lengur samþykki ríkisstjórnarinnar til þess að gefa verðmyndun á tilteknu sviði frjálsa ef samkeppni var nægjanleg, l. nr. 52/1982.

Fyrsta samþykkt Verðlagsráðs í frjálsræðisátt var gerð 8. október 1982 þegar ákvörðun verksmiðjuverðs samkeppnisvara í iðnaði var færð í hendur iðnrekenda sjálfra frá og með 1. janúar 1983. Úr þessu varð frjáls verðmyndun ekki stöðvuð. Matthías Á. Mathiesen tók síðan sjálfur frumkvæðið eftir stjórnarmyndunina 1983 og fól nú verðlagsstjóra, með bréfi dags. 1. nóvember 1983, að leggja fram tillögur „þannig að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar, þar sem samkeppni er næg“.  Frá 1. mars 1984 til 1. júní 1985 var verðmyndun í verslun gefin frjáls í sex áföngum þannig að einungis stóð eftir hámarksverð á olíuvörum, fiski, sementi og nokkrum þáttum flutninga og samgangna. Þetta langa baráttumál var þannig loks í höfn.

Lánamál

Afnám verðstöðvunar leiddi ekki til aukinnar verðbólgu. Þvert á móti hjaðnaði verðbólgan snögglega upp úr miðju ári 1983 „úr því að vera um eða yfir 100% í 12-15%, sem hún var á fyrri hluta árs 1984“ eins og segir í Ársskýrslu Seðlabankans fyrir það ár.

Þessi mikla verðbólga, ásamt neikvæðum raunvöxtum (vextir umfram verðbólgu), kom eðlilega niður á almennum sparnaði og olli samdrætti í innlánum bankakerfisins. Ásókn í útlán varð einnig óseðjandi vegna neikvæðra raunvaxa. Raunvextir höfðu verið stórlega neikvæðir „sem nam 17% á almennum sparisjóðsbókum árin 1973 til 1983 að meðaltali ... jafnframt urðu raunvextir útlána neikvæðir um 12 til 14%“ svo að vitnað sé til Jónasar H. Haralz, bankastjóra Landsbankans. Hugmyndir um að vextir fengju að ráðast af markaðsaðstæðum komu nú til álita sem mótvægisaðgerð. Æ fleiri vildu einnig sjá útlán til atvinnulífsins ráðast af arðsemi, tryggingum og skilvísi. Þeir vildu sporna gegn þeim óhagkvæmu lánveitingum og spillingu sem neikvæðir raunvextir gátu leitt af sér.

Fyrsta skrefið var stigið þegar fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, fékk heimild með lögum nr. 79/1983 til þess að bjóða verðtryggð ríkisskuldabréf og spariskírteini til sölu á almennum markaði og á lánskjörum sem voru óháð vaxtaákvörðunum Seðlabankans og ákvæðum um hámarksvexti. Og þróunin hélt áfram.

Í febrúar 1984 veitti Seðlabankinn innlánsstofnunum heimild til þess að ákveða sjálfar vaxtakjör innlána sem voru bundin til sex mánaða eða lengur. Einnig fengu þær að semja sín á milli um kjör á millibankalánum. Stærsta breytingin varð þó í ágúst 1984 en frá 11. ágúst 1984 bar innlánsstofnunum skylda til þess að ákveða sjálfar og hver um sig alla vexti aðra en vexti almennra sparibóka, endurseljanlegra afurðalána og dráttarvexti. Þessi breyting var ekki gerð ein og sér. Henni var pakkað inn með aðgerðum í þágu sjávarútvegsins. Halldór Ásgrímsson, settur forsætisráðherra, sat í forsvari á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þegar þessar aðgerðir voru kynntar hinn 30. júlí. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem var á fundinum ásamt Matthíasi Á. Mathiesen og Jóni Helgasyni, landbúnaðarráðherra, auk þriggja embættismanna, sagði í viðtali í Morgunblaðinu daginn eftir að aðgerð ríkisstjórnarinnar varðandi vaxtaákvarðanir væri „stærsta skref frá miðstýringu í peningakerfinu í 25 ár“. Þetta mat Þorsteins reyndist rétt þegar fram liðu stundir en orðrómur var um að aðgerðin hefði ekki vakið sama fögnuð Vestanhafs.

Í þágildandi lögum um Seðlabankann nr. 60/1961 sagði: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir ... mega reikna af innlánum og útlánum.“ Lögin lögðu hins vegar enga skyldu á Seðlabankann um að nýta þennan rétt. Sú spurning hafði því vaknað hvort ekki væri rétt að bankinn hætti að ákveða vexti innlánsstofnana en léti þeim það sjálfum eftir. Þessari hugmynd var komið á framfæri við ýmsa aðila. Nú var hún orðin að veruleika og engin ákvæði voru lengur í gildi hvert mætti vera hámark vaxta önnur en þau að vaxtamunur innlánsstofnana skyldi vera ásættanlegur.

Forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, var viðstaddur Ólympíuleikana í Los Angeles 28. júlí til 12. ágúst 1984. Þegar Steingrímur kom heim 15. ágúst var frjálsræðið orðið að veruleika. Ákvörðun vaxta var ekki lengur í höndum Seðlabankans.

Þessi breyting sló svo taktinn fyrir það sem á eftir kom. Ný lög nr.86/1985 um viðskiptabanka tóku gildi 1. janúar 1986. Þau giltu um alla banka jafnt í stað sérlaga. Innlánsstofnanir áttu framvegis að ákveða sjálfar vexti inn- og útlána, stofnun útibúa og fleira. En hópurinn, sem beið á tröppum Landsbankans eftir að ná tali af bankastjórunum, hvarf með öllu. Nú þurftu lánastofnanir eins og aðrir að selja þjónustu sína.

Gjaldeyrismál og utanríkisviðskipti

Samkvæmt lögum um gjaldeyris- og viðskiptamál nr. 63/1979 gat viðskiptaráðherra veitt fleirum en ríkisbönkunum heimild til gjaldeyrisviðskipta (þ.e. viðskipta með erlenda mynt).

Á grundvelli þessa óskaði Matthías Á. Mathiesen eftir því við Seðlabankann 1983 að hlutafélagabönkunum gæfist einnig kostur á að hefja gjaldeyrisviðskipti. Lögum var svo breytt þannig að sparisjóðirnir öðluðust sömu réttindi (nr.73/1983). Var svo komið 1984 að þær lánastofnanir, sem þess óskuðu, nutu fullra réttinda til viðskipta með erlendan gjaldeyri.

Kaup á erlendum gjaldeyri til greiðslu ferðakostnaðar var lengi vel háð leyfi og notkun kreditkorta erlendis óheimil. Í viðskiptaráðherratíð Kjartans Jóhannssonar var opnuð takmörkuð heimild til þess að gjaldeyriseftirlitið leyfði aðilum notkun kreditkorta erlendis ef þeir gátu sýnt fram á nauðsyn þess vegna starfa sinna, fundahalda eða viðskiptaferða.

Þessum takmörkunum var aflétt að tillögu nefndar undir formennsku Davíðs Ólafssonar, seðlabankastjóra, en viðskiptaráðherra skipaði þá nefnd í lok júlí 1983 til þess að endurskoða lög og reglugerðir um gjaldeyris- og viðskiptamál. Nefndin lagði til nýjar reglur um almenna heimild um notkun kortanna erlendis og tóku þær gildi 1. desember 1983. Síðari athugun leiddi í ljós að þessi breyting og afnám á hámarki leyfilegra kaupa á ferðagjaldeyri leiddi til minni útgjalda. Þá höfðu innlendir gjaldeyrisreikningar einnig áhrif en nefndin lagði til að allir, sem öfluðu gjaldeyristekna, gætu fullnægt skilaskyldu með innleggi á innlenda gjaldeyrisreikninga. Einstaklingar áttu þess síðar einnig kost að stofna slíka reikninga og máttu leggja inn erlendan gjaldeyri sem þeir höfðu eignast. Þegar almenningur tók að treysta því að hægt væri að kaupa erlendan gjaldeyri síðar, án takmarkana, jukust innistæður á þessum reikningum verulega.

Ein af fyrstu tillögum nefndarinnar var að afnema leyfi til útflutnings iðnaðarvara. Þær reglur tóku gildi 1. janúar 1984.

Samstarfið í nefndinni var gott. Ritara nefndarinnar, Birni Þórhallssyni, fannst þó að við Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri SÍF og Víglundur Þorsteinsson, formaður FÍI, værum full frjálslyndir í tillögum, þegar rætt var um eignatilfærslur til útlanda, og spurði formanninn, um leið og hann leit til okkar: „Seðlabankastjóri ætlið þér að láta þessa stráka setja landið á hausinn“ eins og Víglundur rifjaði upp í pistli sem ég sá frá honum ekki alls fyrir löngu. Jónas H. Haralz, bankastjóri og Hjalti Pálsson, framkvæmdastjóri hjá SÍS, voru hins vegar sammála okkur að mörgu leyti og öðluðust nýjar reglur um eignayfirfærslur til útlanda gildi 3. apríl 1984. Þórhallur Ásgeirsson, ráðuneytisstjóri átti einnig sæti í nefndinni þannig að alls jafnvægis var gætt.

Nefndin hélt áfram störfum á árunum 1986-1987. Hún fjallaði þá m.a. um reglur um lán vegna útflutningsafurða og um erlendar lántökur og leigusamninga. Var svo komið 1987 að langmestur hluti innflutnings var ekki háður leyfum og mátti flytja vörur inn með greiðslufresti án sérstaks eftirlits gjaldeyrisbanka og tollyfirvalda.

Einkavæðing

Í nóvember 1983 lagði Albert Guðmundsson, fjármálaráðherra, fram nokkur frumvörp í ríkisstjórn þar sem gert var ráð fyrir að allt að átján ríkisfyrirtæki yrðu seld. Slíkt fráhvarf frá ríkisrekstri til einkarekstrar var í anda stefnu Verzlunarráðsins og nýrra viðhorfa á Vesturlöndum til þessara mála. Viðskiptaþingið, sem haldið var 3. mars 1987, var t.d. tileinkað umræðuefninu: „Frá hinu opinbera til einkareksrar“. Þessi nýja hugsun fékk síðar nafngiftina einkavæðing.

Í þessu efni gekk fjármálaráðherra nokkuð lengra en hann gat vænst að yrði strax að veruleika enda heyrðu þessi fyrirtæki undir ýmsa ráðherra. Þetta útspil hleypti þó af stað umbreytingu sem náði til næstu áratuga og breytti landslagi atvinnulífsins. Fyrsta breytingin var að Sigló hf. keypti Lagmetisiðju ríkisins. Hinn 1. júlí 1985 tóku gildi lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 46/1985. Þá var verslun með grænmeti og garðávexti gefin frjáls og stefnt að því að Framleiðsluráð landbúnaðarins hætti rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins í síðasta lagi 1. júní 1986.

Hinn 1. janúar 1985 tóku gildi lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að selja Landssmiðjuna. Þá var Ferðaskrifstofu ríkisins breytt í hlutafélag á árinu 1988 og heimilað að 2/3 hlutar yrðu seldir starfsmönnum. Þessi þróun hélt áfram og náði til fleiri fyrirtækja á lista fjármálaráðherra. Áburðarverksmiðju ríkisins var breytt í hlutafélag 1994. Hún var seld einkaaðilum 1999. Eignir Skipaútgerðar ríkisins – Ríkisskipa voru seldar 1992. Lyfjaverslun ríkisins var breytt í hlutafélag 1994 og helmingur hlutabréfanna seldur í nóvember það ár. Síldarverksmiðjur ríkisins urðu SR-mjöl hf. 1993 og voru hlutabréfin seld 1994 eftir útboð.

Ekki var óumdeilt hvernig staðið var að sölu þessara fyrirtækja og síðari framkvæmd einkavæðingar. Sum viðskiptin leiddu til málaferla. Hins vegar, þegar unnið var eftir gegnsæju og opnu ferli, þar sem allir áttu kost á þátttöku, ef þeir uppfylltu málefnaleg skilyrði varð breytingin farsæl. Það hefur sýnt sig um allan heim að einkarekstur hefur skýra yfirburði umfram opinberan rekstur sem rekstrarform fyrirtækja á samkeppnismarkaði.

Höfundur var hagfæðingur Verzlunarráðs Íslands frá 1974 til 1979 er hann varð framkvæmdastjóri ráðsins. Því starfi gegndi hann þar til í apríl 1987.