Í fyrsta hluta þessa greinaflokks var fjallað almennt um BEPS og BEPS verkefni OECD. Í öðrum hluta var fjallað um aðgerðaráætlun BEPS verkefnisins. Í þessum þriðja og síðasta hluta er fjallað um innleiðingu BEPS aðgerðaráætlunarinnar, en ljóst er að breytingarnar verða umfangsmiklar (eins og ætla má af efnisheitum 15 hluta áætlunarinnar). Talsverð hætta er á að þessum breytingum fylgi annars vegar tvísköttun og hins vegar ekki sköttun eða engin sköttun. Hið fyrrnefnda kemur sér illa fyrir fyrirtækin. Hið síðarnefnda kemur sér illa fyrir ríkin.

Í BEPS aðgerðaráætlun OECD frá október 2015 segir (skáletrun er undirritaðs): „the emergence of competing sets of international standards, and the replacement of the current consensus based framwork by unilateral measures, could lead to global tax chaos marked by the massive re-emergence of double taxation.“. OECD segir mögulegt að breytingarnar, sem BEPS aðgerðaráætlunin hefur í för með sér, leiði til kaos í skattheimtu á heimsvísu í formi mikillar tvísköttunar.

Í könnun sem Deloitte lét gera hjá stjórnendum alþjóðlegra fyrirtækja í ýmsum löndum um BEPS verkefni OECD, var m.a. spurt um hvort þeir væru ósammála eða sammála þeirri fullyrðingu að BEPS verkefnið myndi leiða af sér aukna hættu á tvísköttun. Könnunin var fyrst gerð árið 2014 og svo endurtekin 2015. Góður meirihluti sagðist vera sammála eða mjög sammála að verkefnið fæli í sér aukna hættu á tvísköttun, eða 69% árið 2014 og 75% árið 2015.

Það er ekkert farið að reyna á þetta ennþá. Innleiðingin er til þess að gera nýhafin. Ríkin hófu að breyta löggjöf sinni í kjölfar kynningar á BEPS aðgerðaráætluninni í október 2015 og innleiðingin hefur haldið áfram 2016 og mun halda áfram 2017. Sumar breytingar náðu strax fram að ganga, eins og t.d. nýjar leiðbeiningar OECD um milliverð sbr. hluta 8-10 í áætluninni, en þar er einkum tekið fastar á óefnislegum eignum. Sumar aðgerðir krefjast breytinga á tvísköttunarsamningum, sbr. t.d. aðgerðir sem lagðar eru til í hlutum 6 og 7, en til að ná þeim breytingum fram er, eins og kom fram í síðustu grein, gert ráð fyrir einum fjölþjóðasamningi

sem áætlað er að taki gildi í fyrsta lagi 2017, sbr. Nánar hluta 15 í aðgerðaráætluninni.Aðrar aðgerðir krefjast breytinga á heimalöggjöf einstakra ríkja, eins og t.d. þær aðgerðir sem lagðar eru til í hlutum 2, 3 og 4, og þá er komið undir hverju ríki fyrir sig hversu hratt og vel innleiðingin gengur.

Einhverjum dögum eða vikum eftir kynningu BEPS aðgerðaráætlunar OECD í október sl. fór Deloitte á Íslandi að fá reglulega tilkynningar frá öðrum aðildarfélögum Deloitte að viðkomandi ríki væri búið að breyta lögum eða reglum sínum til samræmis við það sem lagt væri til í áætluninni. Þessar tilkynningar hafa stöðugt haldið áfram að berast, bæði fyrir og eftir áramót.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti tilkynningu á vef sínum 12. október 2015 þar sem athygli er vakin á útgáfu BEPS aðgerðaráætlunar OECD 5. október og jafnframt upplýst að á vegum ráðuneytisins muni fara fram vinna við að kanna hvernig niðurstöðurnar samræmast íslenskri skattalöggjöf og hvar úrbóta kunni að veraþörf. Ekki liggur fyrir hvort þessi vinna sé hafin eða hvernig henni miði. Deloitte á Íslandi hefur borið aðgerðaráætlunina saman við fyrirliggjandi ákvæði í íslenskri löggjöf og telur ljóst að breytingar þurfi að gera á ýmsum sviðum. Vonandi mun ráðuneytið bregðast við fyrr en seinna, þannig að hægt sé að vanda til verka og skattaðilar fái tíma til að laga sig að breyttum reglum áður en þær taka gildi.

BEPS verkefni OECD lýkur ekki með innleiðingu þeirra breytinga sem lagðar eru til í BEPS aðgerðaráætluninni frá október sl. Enn á eftir að þróa ákveðin atriði frekar, eins og t.d. að ljúka við nýjar milliverðlagningarleiðbeiningar (1) um beitingu hagnaðarskiptingaraðferða og (2) um fjármálaviðskipti og komast að niðurstöðu um ákvörðun hagnaðar fastra atvinnustöðva í ljósi breyttrar skilgreiningar á fastri atvinnustöð. Þá er gert ráð fyrir að tekið verði upp eftirlit og mælingar með BEPS hegðun, sbr. hluta 11 í BEPS aðgerðaráætluninni, en almennt er gert ráð fyrir að árangurinn af þessu starfi verði metinn árið 2020 og þá gerðar breytingar ef ástæða þykir til. Markmiðið er alltaf, að skattleggja hagnað þar sem starfsemin og verðmætasköpunin fer fram.

BEPS verkefni OECD er því langtímaverkefni. Það felur í sér nýja nálgun í alþjóðlegum skattarétti, enda tími til kominn þar sem núverandi kerfi hvílir á stoðum sem reistar voru fyrir tæpum hundrað árum og eru börn síns tíma. Áhrifa af þessu starfi OECD munu gæta á Íslandi um ókomna tíð og hafa áhrif á störf skattyfirvalda, ráðgjafa og síðast en ekki síst, starfsemi fyrirtækja.

Höfundur er skattasérfræðingur og meðeigandi hjá Deloitte.