Breski þingmaðurinn George Galloway vinnur ásamt leikstjóranum Greg Ward að gerð heimildamyndar þar sem dregin er upp dökk mynd af Tony Blair, fyrrverandi formanni breska Verkamannaflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Breska dagblaðið Guardian segir að myndin heiti The Killing of Tony Blair og að í henni verði kastljósinu beint að því hvernig Blair hafi eyðilagt Verkamannaflokkinn, átt hlutdeild í morðum á hundruð þúsunda einstaklinga í Íraksstríðinu og því hvernig hann græddi á því öllu saman.

Galloway er þingmaður flokksins Respect og einarður andstæður Blair. Hann var áður í Verkamannaflokknum en var rekinn úr honum árið 2003 vegna andstöðu sinnar gegn innrás í Írak og afstöðu breskra stjórnvalda í stríðsrekstrinum þar.

Þeir Galloway og Ward beita nokkuð óhefðbundinni aðferð við fjármögnun myndinarinnar. Þeir leita á náðir almennings í gegnum Kickstarter og leita eftir því að safna þar um 50 þúsund pundum, jafnvirði um níu milljóna króna.