Skel fjárfestingarfélag tilkynnti í morgun að það hefði skrifað undir nýjan kaupsamning um sölu á 48,3% hlut félagsins i SP/F Orkufelaginu, móðurfélagi færeyska orku- og fyrirtækinu P/F Magns, til færeyska félagsins CIG fyrir 146 milljónir danskra króna eða um 3 milljarða íslenskra króna. Áætlað er að afhendingardagur verði í lok mars.

Í tilkynningu Skeljar til Kauphallarinnar kemur fram að þegar félagið undirritaði fyrri kaupsamninginn í október samþykkti Hólmi, aðaleigandi útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði, á sama tíma að selja eignarhlut sinn í Orkufelaginu til CIG sem hefði gert CIG að meirihlutaeiganda Orkufelagsins.

Hólmi á 7,9% hlut í Orkufelaginu, sem ætla má að sé nærri hálfs milljarðs íslenskra króna virði miðað við framangreint kaupverð. Eignarhlutur Hólma var bókfærður á tæplega 400 milljónir íslenskra króna í árslok 2021.

Í lok desember var undirritaður kaupsamningur milli Skeljar og Hólma sem seljanda og CIG sem kaupanda. Áreiðanleikakönnun er lokið og fjárhagslegir skilmálar sölunnar hafa verið uppfylltir að mati seljenda og kaupenda.

Lítill hluthafi gerði athugasemdir við söluferlið

Hins vegar gerði einn hluthafi með 0,4% hlut í Orkufelaginu athugasemdir við söluferlið, sem Skel telur a eigi ekki við rök að styðja.

„Í ljósi þess að P/F Magn er mikilvægur innviður í Færeyjum, töldu aðilar mikilvægt að sátt væri um rekstur félagsins og viðskipti aðila. Samningsbundnir frestir samkvæmt kaupsamningi runnu út þann 14. febrúar 2023 og er hann því fallinn niður.“

Skel og CIG gerði því með sér nýjan kaupsamning í dag „sem er að mestu fyrirvaralaus, um að CIG kaupi allan 48,3% hlut Skeljar í Orkufelaginu. Skel veitir þó öðrum hluthöfum í Orkufelaginu forkaupsrétt á hinu selda hlutafé. Verði forkaupsréttur hluthafa nýttur að hluta, mun CIG engu að síður kaupa þá hluti sem eftir standa samkvæmt kaupsamningum.

Hólmi, sem er í eigu hjónanna Þorsteins Kristjánssonar og Bjarkar Aðalsteinsdóttur, hefur þó fallið frá fyrirhugaðri sölu.

Fram kemur að samhliða nýja kaupsamningnum hefur Skel skrifað undir skilyrtan sölurétt til Hólma sem gildir í 30 daga eftir samþykkt ársreiknings Orkufélagsins fyrir árið 2023.

„Markmiðið með samningnum er að gera Hólma eins settan og félagið hefði selt samhliða Skel og myndar viðskiptaverð Skeljar og CIG lágmarksverð söluréttarins, að viðbættum 5% ársvöxtum.“