*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 22. október 2019 11:25

Katrín: Eðlilegt að skoða útboð SÍ

Forsætisráðherra telur eðlilegt að Alþingi skoði betur gjaldeyrisútboð Seðlabankans með tilliti til peningaþvættis.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa bæði þurft að svara fyrir tengsl peningaþvættis og fjárfestingaleiðar Seðlabanka Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands og peningaþvætti voru til umræðu á Alþingi í gær og spurði Þórhildur Sunna, þingmaður Pírata, forsætisráðherra hvort ekki væri tilefni til þess að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í kjölinn á fjár­fest­ing­ar­leiðinni svokölluðu, sem hér var við lýði á gjaldeyrishaftaárunum.  

Gjaldeyrisútboð SÍ og möguleg tengsl þeirra við peningaþvætti komu til umræðu í þættinum Silfrið á RÚV síðastliðinn sunnudag. Það vakti athygli þegar ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, lét þau ummæli falla í þættinum að fjár­fest­ing­ar­leið Seðlabanka Íslands hefði verið ein skýr­asta op­in­bera peningaþvættisleið sem nokk­urn tím­ann hafi verið fram­kvæmd. 

Mbl.is fjallar um málið í gær og segir forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttir, hafa í svari við fyrirspurn Þórhildar bent á að Seðlabank­inn hefði sjálf­ur gefið út skýrslu um málið sem ekki hefði verið tek­in fyr­ir á Alþingi, en slíkt ætti að sjálf­sögðu að gera, t.d. hjá efna­hags- og viðskipta­nefnd eða stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Ekki væri rétt að fjármun­ir hafi streymt hingað til lands eft­ir­lits­laust, enda hafi Fjár­mála­eft­ir­litið sinnt eft­ir­lits­hlut­verki vegna fjár­fest­ing­ar­leiðar­inn­ar.  

Spurði Þór­hild­ur Sunna þá hvort ekki væri til­efni til þess að Alþingi léti rann­saka þá stofn­un sem rann­sakaði sjálfa sig.

Í svari sínu sagði Katrín það eðli­legt að viðeig­andi nefnd­ir Alþing­is byrjuðu á að taka skýrslu Seðlabank­ans fyr­ir og at­huga hvort þar væri spurn­ing­um ósvarað.

Ummæli Þórðar í Silfrinu voru borin undir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í gær og sagði hann í samtali við mbl.is að ósmekklegt væri að segja að þetta hafi verið opinber peningaþvættisleið, eins og sérstaklega hafi verið hvatt til þess. „En ég tek öll­um ábend­ing­um af al­vöru ef að ekki hef­ur verið nægi­lega gætt að aðhaldi eða eft­ir­liti meðal ann­ars um upp­runa fjár,“ sagði Bjarni Ben.