FKA Framtíð kynnir viðburðinn „Hver verður næst?“ sem miðar að því að vekja athygli á kvenforstjórum fyrirtækja í íslensku kauphöllinni. Ráðstefnan fer fram í húsakynnum VÍS í dag.

„Við í stjórn FKA Framtíðar erum alltaf að leita að kvenkyns fyrirmyndum, þema vetrarins er „Sterkari þú!“ og okkur fannst því tilvalið að leita til kvenkyns forstjóra skráðra félaga á Íslandi – þú finnur varla meiri neglu,“ Segir Sólveig Ragnheiður Gunnarsdóttir, formaður FKA Framtíðar.

Í tilkynningu segir að deildin leggi mikla áherslu á virkt tengslanet, uppbyggingu og hagnýta fræðslu sem nýtist sem innlegg í starfsframa og þróun, bæði fag- og persónulega. Deildin er fyrir konur sem vilja halda áfram að læra, þróast, þiggja og gefa af sér til annarra kvenna.

„Það er nokkuð ljóst að við þyrftum að leigja Háskólabíó eða jafnvel Laugardalshöllina til að koma öllum karlkyns forstjórum skráðra félaga á eina ráðstefnu, en sagan er önnur fyrir kvenkyns forstjóra á skráðum markaði. Aðeins átta konur hafa verið í forstjórastólnum í Kauphöllinni á Íslandi í sjö félögum. Á tímabili voru fleiri sem báru nafnið „Finnur“ og „Árni“ sem forstjórar í Kauphöllinni á Íslandi. Í dag, árið 2024, eru aðeins fjórar konur forstjórar af 26 félögum í Kauphöllinni á Íslandi.“

Á viðburðinum munu þrjár af kvenforstjórum fyrirtækja sem skráð eru í íslensku kauphöllina vera með erindi, þær Herdís Fjeldsted forstjóri SÝN, Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS og Ásta Fjeldsted forstjóri Festi.

Að loknum erindum forstjóranna þriggja taka við pallborðsumræður með fyrrum kvenforstjórum í skráðum félögum í íslensku kauphöllinni. Til okkar koma þær Sigrún Ragna Ólafsdóttir fyrrverandi forstjóri VÍS, Ragnhildur Geirsdóttir núverandi forstjóri RB og fyrrverandi forstjóri FL Group og Birna Einarsdóttir fyrrverandi forstjóri Íslandsbanka.