Ásta Benónýsdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra þjónustusviðs hjá Sólar ehf. Hún tekur við starfinu af Ingunni Ágústsdóttur sem fer í nýtt starf sviðsstjóra rekstrar og mannauðs hjá fyrirtækinu.

Hún hefur umfangsmikla reynslu af mannauðs- og þjónustustjórnun, sem og af fjölbreyttum verkefnum innan Icelandair en þar hefur hún starfað síðan árið 2006. Ásta hefur þá stýrt fjölda þjónustueininga og sérfræðinga sl. ár og hefur tekið þátt í að leiða flugfélagið í gegnum víðtækar breytingar.

Ásta er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

„Ásta er mikill happafengur fyrir Sólar og reynsla hennar við stjórnun og stefnumótun í þjónustu mun án efa nýtast okkur gríðarlega vel. Fyrirtækið hefur þróast hratt og tekist á við mikinn vöxt undanfarin ár og mörg verkefni eru fram undan í áframhaldandi þróun á þjónustustefnu og samskiptum við viðskiptavini okkar,“ segir Einar Hannesson, framkvæmdastjóri Sólar.

Sólar eru eitt af stærstu ræstingarfyrirtækjum landsins með tæplega 500 starfsmenn í almennum þrifum, hreingerningum og sérverkefnum.