Banka­ráð Lands­bankans segir fjarri sanni að sú leið sem var valin til að fjár­magna kaup bankans á TM tryggingum hafi verið til þess að komast hjá því að leita sam­þykkis hlut­hafa­fundar.

Tryggvi Páls­son, stjórnar­for­maður Banka­sýslunnar, sagði í sam­tali við Morgunblaðið að eina leiðin til að þess að kaupa TM án þess að spyrja hluthafa hafi verið valin.

„Ekki var þörf á út­gáfu nýs hluta­fjár“

Banka­ráð taldi sig engu að síður knúið til að svara þessu og segir í yfir­lýsingu sinni í dag að fjár­mögnunar­leiðin hafi verið valin vegna þess að hún er til þess fallin að við­halda getu bankans til að greiða reglu­legar arð­greiðslur til fram­tíðar.

„Þessi leið var talin hag­stæðust fyrir bankann og eig­endur hans. Ekki var þörf á út­gáfu nýs hluta­fjár, enda verða eigin­fjár­hlut­föll bankans vel yfir lög­bundnum mörkum og mark­miðum bankans. Hefði Lands­bankinn ætlað sér að greiða fyrir TM með út­gáfu nýs hluta­fjár, hefði þurft sam­þykki hlut­hafa­fundar,“ segir í yfir­lýsingu banka­ráðs.

Fjöl­miðlar hafa vakið at­hygli á því að í til­boði Ís­lands­banka í TM var settur fyrir­vari um sam­þykki hlut­hafa en slíkan fyrir­vara var ekki að finna í til­boði Lands­bankans.

Banka­ráðs Lands­bankans bendir á að Ís­lands­banki stað­festi á aðal­fundi sínum að til­boð bankans í TM gerði ráð fyrir hluta­fjár­aukningu. Í fundar­gerð aðal­fundar Ís­lands­banka kemur fram að „til­boð bankans í TM tryggingar hf. hafi verið gert með þeim fyrir­vara að hlut­hafa­fundur Ís­lands­banka sam­þykki út­gáfu nýs hluta­fjár til greiðslu kaup­verðs“.

Að mati Lands­bankans var hag­stæðast að greiða með hand­bæru fé og gefa í kjöl­farið út víkjandi skulda­bréf að fjár­hæð 13,5 milljarðar króna sem greiðist upp eftir fimm ár, en ekki með því að auka hluta­fé.

„Líkt og rakið er í greinar­gerð banka­ráðs Lands­bankans til Banka­sýslu ríkisins frá 22. mars sl. er eigin­fjár­binding Lands­bankans vegna kaupanna á TM um 18,7 milljarðar króna. Eigin­fjár­staða bankans fyrir kaupin er 23,6%. Á­hrif kaupanna eru lækkun um 1,5 prósentu­stig og eftir kaupin yrði eigin­fjár­hlut­fallið 22,1%. Mót­vægis­að­gerðir hækka hlut­fallið aftur í 23,1%. Eigin­fjár­krafa á bankann er 20,7%. Við­mið bankans er að vera á­vallt yfir lág­marks­kröfu. Staðan er því sú að eftir kaup TM og með eða án mót­vægis­að­gerða yrði bankinn alltaf vel yfir eigin­fjár­kröfum,“ segir í yfir­lýsingu bankans.

Þá í­trekar banka­ráð að kaupin séu að þeirra mati í sam­ræmi við eig­enda­stefnu ríkisins líkt og fram kom í skýrslu banka­ráðs til Banka­sýslunnar í lok mars. Banka­ráð rök­styður þá full­yrðingu ekki frekar en í­trekar einnig að Banka­sýslan hafi verið nægi­lega upp­lýst um kaupin að þeirra mati þar sem banka­ráð lét vita af á­huga á TM í lok síðasta árs.