Kristinn, félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, er orðið stærsti hluthafi PPH, móðurfélags Domino‘s á Íslandi, með tæplega 35% hlut. Kristinn keypti 9% hlut í PPH af Eyju fjárfestingarfélagi VI, sem er í eigu hjónanna Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, í fyrra miðað við breytingar á hluthafalista félagsins.

Eyja fjárfestingarfélag VI átti 25,7% hlut í PPH í árslok 2023. Hluthafalistinn var að öðru leyti óbreyttur en Bjarni Ármannsson á einnig 25,7% hlut í Domino‘s á Íslandi í gegnum fjárfestingarfélagið Sjávarsýn og Lýsi hf. fer með 12,9% hlut.

Ofangreindur fjárfestahópur, sem Birgir hefur farið fyrir, keypti rekstur Domino‘s árið 2021 af Domino’s Pizza Group plc í Bretlandi fyrir 2,4 milljarða króna. Birgir starfar áfram sem stjórnarformaður PPH.

Hluthafar PPH

2023 2022
Kristinn ehf. 34,74% 25,74%
Eyja fjárfestingarfélag VI 25,65% 34,65%
Sjávarsýn ehf. 25,74% 25,74%
Lýsi hf. 12,87% 12,87%
Jónsson & Harðarson ehf. 1,00% 1,00%

Velta PPH á árinu 2023 nam yfir 6,6 milljörðum króna og jókst um 7% milli ára. Restrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) jókst lítillega frá fyrra ári og nam 171 milljón. PPH-samstæðan tapaði 147 milljónum króna eftir skatta samanborið við 10 milljóna tap árið áður.

Aukinn taprekstur má að stærstum hluta rekja til 150 milljóna króna neikvæðra áhrifa af rekstri hlutdeildarfélagsins PPS Food AS, sem utan um rekstur Domino‘s í Svíþjóð og Danmörku, en PPH á 20% hlut í sænska félaginu.

Eignir PPH voru bókfærðar á 3,4 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 1,5 milljarðar.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.