Arctica Finance skilaði 306 milljóna króna hagnaði árið 2023 samanborið við 420 milljónir árið áður. Stjórn verðbréfafyrirtækisins leggur til að allt að 306 milljónir króna verði greiddar í arð á árinu 2023, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Tekjur Arctica Finance námu 1.064 milljónum króna í fyrra og drógust saman um 13,4% frá árinu 2022 þegar félagið velti 1.229 milljónum króna. Rekstrarkostnaður jókst lítillega milli ára og nam 716 milljónum.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 663 milljónir í árslok 2023 og eigið fé var um 495 milljónir.

Eignastýringin lögð niður í bili

Starfsemi Arctica felst einkum í fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskiptum (miðlun). Í árslok 2023 voru 22 stöðugildi hjá verðbréfafyrirtækinu.

Starfsemi félagsins hefur einnig byggt á eignastýringu en undir lok árs 2023 var eignastýringarstarfsemin dregin saman og „hún svo lögð af í bili að minnsta kosti í upphafi árs 2024“ samhliða því að starfsmenn í eignastýringu fluttust yfir til systurfélagsins A/F Rekstraraðila hf. ásamt þeim viðskiptavinum sem það kusu.

Arctica Finance hf. átti dótturfélagið A/F Rekstraraðila hf., en seldi það undir lok árs 2023. A/F Rekstraraðilar, sem fékk starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans sem rekstraraðila sérhæfðra sjóða í nóvember sl., varð dótturfélag Arctica Eignarhaldsfélags ehf. í árslok 2023.

Arctica Finance er í helmingseigu Arctica Eignarhaldsfélag en stærstu hluthafar þess eru Bjarni Þórður Bjarnason, aðstoðarframkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins, og Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri. Ellefu aðrir starfsmenn eru hluthafar í Artcica Finance.