Bankaráð Landsbankans vanrækti upplýsingaskyldu sínu samkvæmt samningi um rekstur bankans í tengslum við kaupin á TM. Engin formleg samskipti áttu sér stað milli Landsbankans og Bankasýslu ríkisins áður en að kauptilboð var lagt fram og algjör þögn hafi ríkt af hálfu bankaráðs í þrjá mánuði.

Kaupin á TM eru ekki samræmi við eigendastefnu ríkisins og fari gegn áherslu hennar á arðgreiðslur og niðurgreiðslu skulda og lágmörkun áhættu.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Bankasýsla ríkisins birti í dag um viðbrögð við greinargerð Landsbankans um kaup á öllu hlutafé í TM þann 15 mars sl.

Bankasýslan segir að um hafi verið að ræða meiriháttar stefnumarkandi ákvörðun af hálfu Landsbankans sem bankanum bar að greina Bankasýslunni frá.

Í ljósi þessa hefur Bankasýslan ákveðið að velja nýja einstaklinga sem tilnefndir verða í bankaráð Landsbankans á aðalfundi næstkomandi föstudag.

Að aðalfundi loknum mun Bankasýslan síðan óska eftir fundi með nýju bankaráði, þar sem áhersla verði lögð á að bankaráð leggi mat á viðskiptin með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa og meti þá valkosti sem bankinn hefur í stöðunni með hliðsjón af ákvæðum laga og eigandastefnu ríkisins.

Í bréfi til fjármálaráðherra kemur enn fremur fram að Bankasýslan telji að nýtt bankaráð gæti til dæmis litið til sölu á TM til þriðja aðila, frumútboðs á hlutum í félaginu, útgreiðslu hluta til eigenda eða endurskipulagningar starfsþátta innan samsteypu bankans og TM.

Lýstu yfir vonbrigðum

Fyrst var greint frá kaupunum þann 17. mars sl. þegar tilkynnt var að stjórn Kviku banka hafði ákveðið að taka tilboði Landsbankans í TM Tryggingar. Kaupverð samkvæmt tilboðinu var 28,6 milljarðar króna og myndi Landsbankinn greiða fyrir hlutaféð með reiðufé.

Tilkynningin vakti hörð viðbrögð en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi fjármálaráðherra, sagði sama dag að kaupin yrðu ekki að veruleika með sínu samþykki nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.

„Ég hef óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins sem heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum og setur almenn viðmið um áherslur í rekstri auk þess að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins,“ sagði Þórdís á sínum tíma.

Bankasýsla ríkisins sendi Landsbankanum bréf þann 18. mars þar sem stofnunin lýsti yfir vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf varðandi viðskiptin.

Bankaráð Landsbankans hélt því fram í bréfi til Bankasýslunnar 22. mars að kaupin væru í sam­ræmi við eig­enda­stefnu ríkisins og að Banka­sýslan hefði verið upp­lýst um kaupin.Vísaði banka­ráð í tölvu­póst frá 11. júlí 2023 þar sem bankinn greindi frá á­huga sínum á sölu­ferlinu.

Form­legt sölu­ferli á TM hófst 17. nóvember 2023 en formaður bankaráðs hafi upp­lýst bankasýsluna símleiðis undir lok desember 2023 að bankinn hefði skilað inn ó­skuld­bindandi til­boði í TM. Þá hafi Bankasýslan verið upplýst 17. mars að Kvika hafi samþykkt skuldbindandi tilboð bankans.

Athyglisvert að velja einu leiðina sem kallar ekki á aðkomu hluthafa

Að því er segir í skýrslu Bankasýslunar var stofnunin þó ekki upplýst um tilboðið fyrr en eftir að Kvika hafði samþykkt tilboðið. Bankaráð hefði átt að upplýsa stofnunina með nægjanlegum fyrirvara áður en það var lagt fram þann 15. mars. Telur stofnunin að þriggja mínútna símtal formanns bankaráðs og formanns stjórnar þann 20. desember sl. sé í engu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til Landsbankans eða bankaráðs þess.

Var það því niðurstaðan eftir lestur á greinargerð Landsbankans að upplýsingagjöf bankans til stofnunarinnar hafi verið ófullnægjandi með vísan til ákvæðis samnings um almenn og sértæk markmið í rekstri Landsbankans, ákvæðum eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og þeim formlega hætti sem viðhafður hafi verið í miðlun mikilvægra upplýsinga af hálfu fjármálafyrirtækja til Bankasýslu ríkisins.

„Þá telur stofnunin að Landsbankinn hafi ekki sýnt að viðskiptin séu í samræmi við önnur ákvæði eigandastefnunnar varðandi markmið ríkisins um eignarhald, meginreglur og stjórnarhætti, kröfur og árangursviðmið, arðsemi, arðgreiðslur og áhættu. Þá telur stofnunin þau ekki vera í samræmi við stefnu stjórnvalda, eins og nánar verður gerð grein fyrir.

Þannig vekur það athygli stofnunarinnar að Landsbankinn virðist hafa valið einu leiðina við kaup á TM sem ekki kallar á aðkomu eða samþykki hluthafa með nokkrum hætti. Þá hafa viðskiptin í för með sér að eiginfjárhlutfall bankans lækkar niður að settum lágmarksmarkmiðum auk þess sem að rökstuðningi fyrir mögulegum samlegðaráhrifum skortir með öllu.“

Hvað tilnefningar í bankaráð varðar leggur Bankasýsla ríkisins til eftirfarandi einstaklinga:

Aðalmenn:

Jón Þ. Sigurgeirsson, formaður

Eva Halldórsdóttir

Kristján Þ. Davíðsson

Rebekka Jóelsdóttir

Steinunn Þorsteinsdóttir

Þór Hauksson

Örn Guðmundsson

Varamenn:

Sigurður Jón Björnsson

Stefanía Halldórsdóttir

Fréttin hefur verið uppfærð.