Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir í færslu á Facebook í kvöld að kaup Landsbankans á TM verði ekki að veruleika með sínu samþykki nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.

„Ég hef óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins sem heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum og setur almenn viðmið um áherslur í rekstri auk þess að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins.“

Tilkynnt var í dag um að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans í TM Tryggingar. Kaupverð samkvæmt tilboðinu er 28,6 milljarðar króna.

Þórdís Kolbrún er ekki sátt við þróun mála og vísar í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar þar sem kveðið er á um að stjórn­völd muni halda áfram að draga úr eign­ar­haldi rík­is­ins í fjár­mála­kerf­inu og nýta fjár­muni sem liggja í slík­um rekstri í upp­bygg­ingu innviða. Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sé samhljóða.

„Þrátt fyrir allt þetta mun Landsbankinn, sem er í tæplega 100% í eigu ríkisins en eigendastefna kveður á að draga eigi úr eignarhaldi ríkisins þar, að óbreyttu stækka og stíga afgerandi inn á nýjan markað með kaupum á stóru fyrirtæki á markaði, TM,“ skrifar Þórdís.

„Ríkisfyrirtæki á ekki að kaupa tryggingafélag. Ríkið á að losa um tugi milljarða og umbreyta þeim í samfélagslega innviði sem almenningur nýtur góðs af og byggir undir frekari verðmætasköpun og samkeppnishæfni allra landshluta. Kröftum okkar er betur borgið í öðrum fjárfestingum en í tryggingastarfsemi, sem af mér vitandi enginn hefur kallað eftir að sé í ríkisrekstri.“