Veitingastaðurinn Al Condominio, sem opnaði nýlega í norður-ítölsku borginni Verona, býður viðskiptavinum upp á ókeypis flösku af góðu víni í skiptum við að skilja tímabundið við símann og njóta þess í stað félagsskaparins og matarins.

Sérstakt stafrænt detox, eins og það er orðað, lofar ókeypis vínflösku gegn því að afhenda starfsmanni veitingastaðarins símann til að geta sett hann í læsta skúffu.

Ein flaska er gefin fyrir hvert par sem tekur þátt en tilboðið breytist þó í eina flösku á hverja fjóra þegar um hópa er að ræða.

„Að losa sig við tæknina er lúxus... því í dag er tíminn sem við eyðum með félögum með góðu glasi af víni eða ástvinum og nýjum kynnum það dýrmætasta sem við höfum. Við unnum með þessa hugmynd til að kynna eitthvað nýtt og forvitnilegt og til að auka upplifunina,“ segir Angelo Lella, stofnandi Al Condominio.

Samkvæmt rannsókn frá 2018 sem birt var í tímaritinu Experimental Social Psychology kom í ljós að matargestir voru líklegri til að segjast vera annars hugar ef þeir notuðu símana sína meðan þeir voru úti að borða með vinum og fjölskyldu.