Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), hefur ákveðið að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku samtakanna. Kjör formanns fer fram í aðdraganda aðalfundar SA sem fer fram þann 15. maí.

Eyjólfur Árni hefur verið í stjórn SA frá 2014 og í framkvæmdastjórn frá 2016. Þá hefur hann verið formaður samtakanna frá árinu 2017.

„Framtíðarsýn Samtaka atvinnulífsins er samfélag hagsældar og tækifæra og hlutverk samtakanna er að styðja við fyrirtæki til verðmætasköpunar og jákvæðra áhrifa á samfélagið allt,“ segir Eyjólfur Árni í tilkynningu á vef SA.

„Samtök atvinnulífsins upplifðu mikinn einhug hjá atvinnulífi og almenningi varðandi leiðina að verðstöðugleika og bættum lífskjörum í aðdraganda og við gerð Stöðugleikasamningsins fyrr á árinu. Stöðugleiki kemur hins vegar ekki af sjálfu sér þrátt fyrir góða niðurstöðu kjarasamninga. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi, en ekki öfugt. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð og vera samtaka. Þannig náum við tökum á verðbólgunni og eygjum von um lækkun vaxta. Verkefnið er ekki búið. Það er mér sannur heiður að gefa kost á mér sem formaður Samtaka atvinnulífsins fyrir komandi starfsár og leggja mitt af mörkum við að ljúka verkefninu.“

Eyjólfur Árni er byggingarverkfræðingur að mennt. Hann hefur undanfarna þrjá áratugi sinnt stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi. Hann var forstjóri Mannvits hf. og forvera þess félags í 12 ár til ársloka 2015. Hann hefur síðan sinnt ráðgjafa- og stjórnunarstörfum.

Kjörgengir til embættis formanns SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna. Rafræn kosning hefst þriðjudaginn 30. apríl og lýkur kl. 10.00 á aðalfundardag, miðvikudaginn 15. maí.