Hluta­bréfa­verð mat­væla­fyrir­tækisins Bakka­varar, sem Ágúst og Lýður Guðmundssynir eiga meirihluta í, hefur hækkað um 40% það sem af er ári og stendur gengið í 118 pensum þegar þetta er skrifað.

Bakka­vör, sem er skráð í Kaup­höllina í Lundúnum, hefur átt góðu gengi að fagna síðustu mánuði en tekjur fé­lagsins námu um 2.203 milljónum punda í fyrra sem sam­svarar um 383 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Verðbólgan eykur ásókn í vörur Bakkavarar

Rekstrar­hagnaður jókst tölu­vert á milli ára og fór úr 37,8 milljónum punda í 97,1 milljón pund árið 2023. Hand­bært fé fé­lagsins jókst um 49,8 milljónir punda á árinu og stóð í 103 milljónum við árs­lok 2023.

Um 84% af öllum tekjum Bakka­varar koma í gegnum Bret­lands­markað en þrátt fyrir að fé­lagið hafi verið að sækja fram í Banda­ríkjunum og Kína er reksturinn þar ekki orðinn arð­bær.

Í árs­upp­gjöri Bakka­varar sem birtist í lok mars segir að breskir neyt­endur, ó­líkt Banda­ríkja­mönnum, hafi verið að glíma við þrá­láta verð­bólgu og séu þeir því meira með­vitaðir um verð og gæði mat­vara. Í upp­gjörinu segir að um 61% breskra neyt­enda séu að velja ó­dýrari mat­vörur til að reyna að draga úr kostnaði við matar­inn­kaup.

„Þetta á einnig við í Kína þar sem hæg endur­reisn efna­hags­kerfisins hefur slegið á bjart­sýni neyt­enda og dregið úr eyðslu,“ segir í upp­gjörinu en um 5,5% af tekjum sam­stæðunnar kemur frá Kína.

Bakka­vör segist finna teljandi mun á að­sókn neyt­enda í mat­vörur á við­ráðan­legu verði líkt og flat­bökur.

Aukinn fram­færslu­kostnaður í Bret­landi hefur leitt til þess að 67% Breta segjast ætla að sækja veitinga­staði í minna magni á næstu mánuðum. Stefnir Bakka­vör því á að sækja fram þar sem neyt­endur sæki þess í stað í ferskar til­búnar mál­tíðir í mat­vöru­verslunum.

Sam­kvæmt fyrir­tækinu ætla um 65% mat­vöru­verslana að auka vægi til­búinna ferskra mál­tíða í hillum sínum á næstu 12 mánuðum.

Fé­lagið hefur einnig hagrætt á kostnaðar­hliðinni með því að loka tveimur fram­leiðslu­stöðum í Bret­landi.

Eignarhlutur bræðranna um 60 milljarða virði

Markaðs­virði Bakka­varar stendur í um 678 milljónum punda sem sam­svarar um 119 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Bakka­vör er í 50,2% eigu Ágústs og Lýðs Guð­munds­sona, sem stofnuðu Bakka­vör árið 1986. Eignar­hlutur bræðranna stendur í 340 milljón pundum sem sam­svara um 60 milljörðum króna.

Um miðjan janúar stóð eignar­hlutur bræðrana í 256 milljónum punda að markaðs­virði eða um 44,6 milljörðum króna.

Virði eignar­hlutar þeirra hefur því aukist um tæpa 16 milljarða á rúmum þremur mánuðum en lítil breyting hefur verið á gengi krónunnar gagnvart pundinu á tímabilinu.

Í byrjun árs keypti sjóður í stýringu hjá banda­ríska fjár­festingar­fé­laginu LongRange um 116,5 milljónir hluta eða um 20,1% eignar­hlut á 99 milljónir punda.

Seljandinn er fé­lag tengt banda­ríska vogunar­sjóðnum Bau­post Group sem seldi allan eignar­hlut sinn í Bakkvör. Með sölunni lauk hlut­hafa­sam­komu­lagi Baupost Group við Bakka­vör, sem hófst í nóvember 2017.

Pat­rick Cook, full­trúi Bau­post í stjórninni, steig einnig til hliðar.

Bakka­vör gerði hlut­hafa­sam­komu­lag við LongRange sem felur m.a. í sér að Robert Berlin tekur sæti í stjórn Bakka­varar sem full­trúi banda­ríska fjár­festingar­fé­lagsins. Berlin sat áður í stjórn Bakka­varar á árunum 2016-2018.

LongRange, sem var stofnað árið 2019, er með um 1,7 milljarða dala í stýringu. Banda­ríska fjár­festingar­fé­lagið segist horfa til langs tíma við fjár­festingar­á­kvarðanir og að fjár­mögnun þess megi að stórum hluta rekja til stofnana­fjár­festa.