*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Frjáls verslun 28. október 2019 19:03

Innkoman verður að vera meiri en útgjöldin

Arngrímur Jóhannsson segir að þrátt fyrir að flugrekstur geti verið flókinn eigi þeir sem stjórna flugfélögum að þekkja kostnað félagsins

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Árið 2005 seldi Arngrímur Jóhannsson, stofnandi Air Atlanta, hlut sinn í félaginu til Avion Group en Air Atlanta hafði þá vaxið gífurlega og stóð floti félagsins aðallega saman af Lockheed L-1011 TriStar og Boeing 747 breiðþotum. „Ég var allan tímann starfandi stjórnarformaður en var einnig yfirflugstjóri, þjálfunarflugstjóri en undir lokin starfaði ég sem venjulegur flugstjóri. Á þeim tíma sem ég seldi var ég kominn á aldur sem flugmaður og var orðinn frekar þreyttur og þarna var góður tími til að draga sig til baka. Eftir söluna lendir félagið í lægð. Til allrar guðs lukku komu hins vegar inn þeir menn sem eiga félagið í dag. Þeir hafa lyft grettistaki við að koma félaginu upp aftur.“

Sjá einnig: Neituðu að gefast upp 

Arngrímur segir að þrátt fyrir að flugrekstur geti verið flókinn eigi þeir sem stjórna flugfélögum að þekkja kostnað félagsins og að óvænt útgjöld séu eitthvað sem menn eigi að sjá fyrir. „Það eru engir óvæntir reikningar. Í flugrekstri þá ertu með fastan kostnað á borð við tryggingar, fjármagnskostnað, laun og húsnæðiskostnað. Síðan ertu með flugkostnaðinn sem fellur bara til þegar þú ert að fljúga. Menn eiga að þekkja kostnaðinn frá byrjun. Menn eiga að vita hvað vélin kostar sem er svo afskrifuð, mótorarnir hafa sinn líftíma og svo eru það laun og eldsneytiskostnaður, þetta eru meira og minna þekktar stærðir.

Ég man að þegar verið var að hengja á mig fálkaorðu þá kom til mín blaðamaður og spurði hvort ég væri með einhverja sérstaka þekkingu á viðskiptum. Ég sagði nei en ég veit hins vegar að innkoman verður að vera meiri en útgjöldin. Það var hlegið að mér en ég veit ekkert betra.“

Frumkvöðlar á sínu sviði

að sögn arngríms þá hefur hreyfanleiki air atlanta alltaf verið einkenni félagins. „Þegar maður er svona lítill og einhver þarf á einhverju að halda og fréttin berst út í hvelli þá vita menn að þessi er með vél og getur hjálpað þér. Félagið hefur alltaf verið mjög hreyfanlegt og við fengum fljótt góðan orðstír sem félagið er enn með. Það sem við fundum upp og var meðal annars fjallað um á forsíðu Le Monde, Der Spiegel og Newsweek var að þeir töluðu um að við hefðum fundið sérhæfingu í flugrekstri sem var ónotuð og snerist þegar flugfélög voru að gíra sig niður. Félögin voru þá með flota af flugvélum en sáu svo að þau þyrftu að skera niður t.d. með því að segja upp fólki með þriggja mánaða fyrirvara. Í stað þess að stoppa þá fengu þeir okkur til að klára samningana.

Sjá einnig: Atlanta kemur frá Liechtenstein

Þá var Atlanta einnig fengið til þegar önnur félög voru að rannsaka hvort einhver flugleið myndi ganga rekstrarlega en vildu ekki kaupa flugvélar til þess. Við vorum þá fengnir til að athuga hvort þetta gengi og eftir þrjá mánuði þá gekk þetta eða gekk ekki. Ef það gekk þá gátu þeir farið að undirbúa þetta sjálfir. Ef þetta gekk ekki þá var bara samningurinn búinn og allir glaðir en það má segja við vorum ákveðnir frumkvöðlar í þessu. Eitt dæmi um þetta er að við byrjuðum að fljúga fyrir Qatar airways út frá Doha og vorum með þeirra fyrstu flugvél. Floti þess félags samanstendur nú af rúmlega 200 vélum auk þess sem félagið er með annað eins í pöntun.“

Nánar er rætt við Arngrím í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér.