Íslensku fjárfestarnir sem ætluðu að fjárfesta í einkareknu sjúkrahúsi í Mosfellsbæ sem fyrirtækið MCPB ehf hefur áformað að reisa munu ekki ekki vera með í verkefninu.

Segja sig úr stjórn og afsala sér sínum hlut

RÚV greindi frá því að Gunnar Ármannsson, innanhúslögmaður VHE vélaverkstæðisins í Hafnarfirði og vélaverkstæðið sjálft, sem ætluðu að eiga sitt hvort eina prósentið í verkefninu, hafi ákveðið að draga sig út úr stjórn fyrirtækisins.

Gunnar og forstjóri vélaverkstæðisins hafa nú báðir sagt sig úr stjórn íslenska félagsins, sem Hollendingurinn Henri Middeldorp fer fyrir, vegna ágreinings. Jafnframt hafi þeir afsalað hollenska móðurfélagi íslenska fyrirtækisins sínum hlutum.

Óupplýst um eigendur

Snúast deilurnar um að ekki sé búið að upplýsa hverjir standa að baki Burbanks Holding, hollenska félaginu sem á íslenska félagið að öðru leiti, og þá hvenær eigi að upplýsa um það.

Gunnar er fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, og hefur um nokkurra ára skeið staðið fyrir áformum um að koma heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga á Íslandi, en í kjölfar þess að upplýst var um áformin varð mikil umræða um þau hér á landi.

Neikvæð umræða

„Þegar þessi umræða fór af stað þá varð hún fljótt neikvæð út í fjárfestana sem væru á bak við verkefnið. Þá þótti okkur eðlilegt að upplýsa bara strax um hverjir þetta væru. Það stóð hvort sem er til að það yrði gert þegar sótt yrði um ívilnanir fyrir verkefninu. Okkur fannst ástæðulaust að vera að búa til einhverja óþarfa tortryggni sem ekki þyrfti að vera. Þannig að við vildum að það yrði upplýst hverjir væru á bak við þetta,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

Henri Middeldorp, er sagður eiga um helmingshlut í hollenska félaginu, en hann vill ekki upplýsa um hverjir fjárfestarnir eru fyrr en umsókn um fjárfestingarívilnun frá íslenskum stjórnvöldum yrði send inn.

Getur bjargað íslensku heilbrigðiskerfi

Gunnar segist þrátt fyrir gagnrýni á verkefnið þess efnis að það geti tekið starfsfólk frá íslenska heilbrigðiskerfinu þvert á móti halda að þetta sé eitt af því sem geti mögulega hjálpað því. „Ég er búinn að vera þeirrar skoðunar mjög lengi,“ segir Gunnar.

„Það er talað um að svona verkefni muni taka íslenskt starfsfólk frá íslenska heilbrigðiskerfinu. Þá má spyrja á móti, hvað með aðrar greinar sem hafa verið að soga til sín starfsfólk úr íslenska heilbrigðiskerfinu, eins og til dæmis flugreksturinn? Er það þá ekki ógn við íslenska heilbrigðiskerfið? Það væri forvitnilegt að vita hversu margir hjúkrunarfræðingar til dæmis eru að vinna núna sem flugfreyjur. Það er fjöldinn allur af heilbrigðisstarfsmönnum sem hefur farið í önnur störf af því að þau eru betur launuð.“