Fjárfestingafélagið Stoðir leiðir hóp innlendra fjárfesta sem hafa gengið frá kaupum á nærri helmingshlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures. Þetta kemur fram í grein hjá viðskiptamiðlinum Innherja.

Seljendur hlutanna eru félögin Wings Capital, í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, Umbrella, í eigu feðganna Kára og Steinars Björnssonar og Björns Hróarssonar fyrrverandi eiganda Extreme Iceland, og Bakkagrandi, í eigu Styrmis Þórs Bragasonar fyrrverandi forstjóra Arctic Adventures.

Samkvæmt heimildum Innherja eignast Stoðir um 35% eignarhlut í félaginu og er nú stærsti einstaki hluthafinn. Í kjölfarið munu Stoðir fá tvo fulltrúa í stjórn Arctic Adventures. Þannig greinir Innherji frá því að Lárus Welding, rekstrarstjóri Stoða og fyrrverandi bankastjóri Glitnis, muni taka við sem nýr stjórnarformaður félagsins. Auk þess muni Alexander Hjálmarsson, verkefnastjóri fjárfestingafélagsins, koma nýr í stjórnina.

Aðrir fjárfestar sem koma að kaupunum eru sjóðir í rekstri Landsbréfa, félag í eigu Ísfélags Vestmannaeyja og fjárfestirinn Finnur Björn Harðarson í gegnum félagið Nataaqnaq Fisheries.

Í lok árs 2021 greindi Viðskiptablaðið frá því að Arctic Adventures stefndi á markað. Af því tilefni var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri og átti hún að leiða verkefnið.

Í kjölfar eigendaskiptanna eru skráningaráformin í óvissu, en Innherji greinir frá því að áður boðuð áform um skráningu hafi verið slegin út af borðinu um ófyrirséðan tíma.

Í samtali við Viðskiptablaðið í síðasta mánuði sagði Gréta María, forstjóri félagsins, að breyting í hluthafahópnum gæti mögulega leitt til stefnubreytingar.

„Í gildi er hluthafasamkomulag þar sem samkomulag er um að undirbúa skráningu. Ef það verður breyting í hluthafahópnum er alltaf möguleiki á því að hlutir breytist en það verður tíminn að leiða í ljós."