Forsvarsmenn þeirra sem standa að Wab air hafa sótt um flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu að því er RÚV greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um virðast tveir mismunandi aðilar vera með áætlanir um endurreisn lággjaldaflugfélags á Íslandi.

Sveinn Ingi Steinþórsson sem áður vann hjá Wow air, og einn stofnanda Wab air, segir kaup félags í eigu Michele Ballarin á eignum Wow air ekki hafa áhrif á fyrirætlanir þeirra um nýtt félag sem komist á laggirnar í haust að því er Vísir greinir frá.

Hann segir umsóknina um flugrekstrarleyfi hafa verið senda inn fyrir þremur vikum síðan. „Við ætlum að vera flugfélag fólksins,“ segir Sveinn Ingi og segir félagið verða íslenskt með íslenska kennitölu og íslenskt starfsfólk og flugrekstrarleyfi. „Við munum byggja mikið á því góða fólki sem við höfum unnið með í gegn um tíðina.”