Tveir fyrrverandi stjórnendur hjá Wow air ásamt hópi fjárfesta, þar með talið með aðkomu írsks fjárfestingarsjóð í eigu eins stofnanda Ryanair undirbúa stofnun nýs lággjaldafélags að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hafa þeir leitað að lánveitingu upp á 31 milljón evra, eða tæplega 4 milljarða króna til að minnsta kosti til tveggja banka hér á landi. Auk þess er undirbúningur fyrir umsókn um flugrekstrarleyfi sagður langt á veg kominn.

Jafnframt hefur Avianta Capital, írski fjárfestingarsjóður Aislinn Whittley-Ryan, en hún er dóttir Michaels Kell Ryan sem kom að stofnun Ryanair, skuldbundið sig til að leggja félaginu, sem á að heita Wab air samkvæmt minnisblaði um málið, til 40 milljónir dala, eða rúmlega 5 milljarða króna í nýtt hlutafé.

Loks hyggjast þeir nýta þessa fjárfestingu auk íslenska lánsins sem læst yrði á vörslureikningi til að fá frekari lán hjá svissneskum banka. Avianta Capital mun þar með eignast 75% hlut í félaginu en 25% verða í eigu félagsins Neo sem er í eigu fjögurra Íslendinga, þar af tveggja fyrrum stjórnenda Wow air.

Það er þeirra Arnars Más Magnússonar sem var framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Wow air og Sveins Inga Steinþórssonar sem stýrði hagdeild Wow air og sat í framkvæmdastjórn félagsins. Hinir tveir Íslendingarnir eru þeir Bogi Guðmundsson lögmaður hjá Atlantik Legal Services og stjórnarmanns í Bus Travel og Þóroddur Ari Þóroddsson ráðgjafa í flugvélaviðskiptum í London.

Í áætlunum hópsins er gert ráð fyrir að fljúga til 14 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku, með sex vélum í rekstri fyrsta árið. Sjá þeir fram á að geta flutt milljón farþega og vera með 20 milljarða króna veltu á næsta ári. „Félagið verður með áherslu á lágan kostnað, samkeppnishæf verð, afbragðsþjónustu og mikið fjör fyrir sína starfsmenn og viðskiptavini,“ segir m.a. í minnisblaðinu.