Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gær, um fjárlögin 2023 og mikla aukningu ríkisútgjalda frá 1998. Það ár var framsetningu fjárlaganna breytt svo þau gæfi réttari mynd af ríkisútgjöldunum.

Frá árinu 1998 hefur íbúum landsins fjölgað um 32% en ríkisútgjöldin hafa aukist um 165% á föstu verðlagi. Aukningin í fjárlögum 2023 nemur 14% sem er mesta aukning ríkisútgjalda frá 1991, en Óðinn skoðaði fjárlögin ekki lengra aftur í tímann.

Hér er brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

165% hækkun ríkisútgjalda frá 1998

Ef fjárlög 1998 eru borin saman við fjárlög 2023, en Friðrik Sophusson þáverandi fjármálaráðherra lagði sitt síðasta fjárlagafrumvarp í árslok 1997, þá sést að ríkisútgjöldin hafa vaxið gríðarlega að núvirði. Útgjöldin samkvæmt fjárlögunum 1998 námu 508 milljörðum á núverandi verðlagi, en í 2. umræðu um fjárlögin í gær verða þau 1.347 milljarðar. Þetta er 165% hækkun.

Viðstöðulaus halli frá 1984 til 1997

Halli hafði verið á rekstri ríkissjóðs viðstöðulaust frá árinu 1984. Fyrsta hallalausa árið var 1997 og þaðan í frá lögðu ríkisstjórnir alltaf fram hallalaus fjárlög fram til ársins 2009. Reyndin var þó ekki alltaf sú.

Auðvitað má halda því fram að menn hafi verið farnir fram úr sjálfum sér í útgjöldum á árunum rétt fyrir hrun. Það sést best á hækkun ríkisútgjalda í fjárlögum áranna 2007 og 2008. En fjárlögin gerðu ráð fyrir afgangi bæði þessi ár. Afgangurinn nam 88,6 milljörðum 2007 en 194 milljarða halli varð árið 2008 í stað 39 milljarða afgangs eins og gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögunum. Enda breyttust forsendurnar það ár verulega eins og flestir þekkja.

Halli fyrir Covid

Þegar fjárlög 2020 voru samþykkt í lok nóvember 2019 hafði líklega enginn heyrt af Covid-19 enda kom fyrsta tilfellið upp í Wuhan í Kína í desember. Í þessum fjárlögum var gert ráð fyrir 9,8 milljarða halla. Mikil útgjaldaaukning var árin á undan og ljóst að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem tók við haustið 2017, var ekki sérstaklega annt um annarra manna peninga.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, á fullveldisdeginum 1. desember 2022.