Hrafnarnir eru á því að stjórnarkjörið í Festi í fyrramálið sé mun meira spennandi en leikirnir í Meistaradeildinni sem fara fram um kvöldið. Mesta spennan er um hvort Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, nái kjöri annars vegar og hins vegar hvort Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita, komist inn í stjórn félagsins.

Þórður Már er einn stærsti einkafjárfestirinn í Festi en félag hans fer með tæplega 2% hlut í félaginu. Tilnefninganefnd Festi mælir með kjöri Þórðar og eins fram kemur í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag þá nýtur hann stuðnings annarra einkafjárfesta og nokkurra lífeyrissjóð í hluthafahópnum.

Þó ekki allra. Tveir lífeyrissjóðir – LSR og Brú – hafa opinberlega lýst yfir andstöðu við framboð Þórðar Más. Hrafnarnir undra sig á því að ekki meiri umræða hafi farið fram um það mikla vantraust sem í þessu felst af hálfu þessara tveggja sjóða til starfa tilnefninganefndarinnar. Látum það þó liggja milli hluta.

LSR nú þegar með "sinn mann"

Í frétt Morgunblaðsins er fullyrt að Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, hafi hvatt Guðjón Auðunsson til framboðs. Morgunblaðið staðfestir með þessu þrálátan orðróm sem hefur verið á lofti að undanförnu. Rétt er að halda til haga að LSR er nú þegar með „sinn mann“ í stjórn en sjóðurinn tefldi fram Sigurlínu Ingvarsdóttir í stjórnarkjörinu sumarið 2022 þegar mikil átök voru um félagið. Tilnefninganefndin mælir með Sigurlínu til áframhaldandi stjórnarsetu.

Hrafnarnir velta fyrir sér hvað framkvæmdastjóra LSR gangi til með þessu. Guðjón mun láta af störfum sem forstjóri Reita á næstu vikum. Hagar, helsti keppinautur Festi á smásölumarkaði, er meðal stærstu leigutaka Reita og þar af leiðandi býr hann yfir viðkvæmum viðskiptaupplýsingum um samninga Haga og Reita um leiguverð og þróunarlóðir.

Óþægileg staða

Hér er ekki efast um heilindi Guðjóns en staðan yrði óþægileg, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, nái hann kjöri í stjórn Festi sökum þessa þáttar. Hrafnarnir telja allar líkur á því að Samkeppniseftirlitinu gæti þótt þetta athugunarvert. Ekki þarf að kalla til sérstakan kunnáttumann til að rifja upp erfið samskipti Festi og Haga gegnum tíðina en það er önnur saga.

Hagsmuna hverra er verið að gæta?

Undarlegt verður að teljast að einn stærsti hluthafinn í Festi sé að beita sér fyrir að þessi staða komi upp. Málið verður svo enn undarlegra þegar haft er í huga að LSR er einnig einn stærsti hluthafinn í Högum. Fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins að margir hluthafar Haga furði sig á framboði Guðjóns – hrafnarnir gera ráð fyrir að LSR sé ekki í þeim hópi. Í því ljósi má velta fyrir sér hagsmuna hverra sé verið að gæta í þessu brölti öllu saman – hluthafa eða einhverra annarra?

Í þessu samhengi benda hrafnarnir á að framboð Guðjóns barst eftir að tilnefninganefndin hafði lokið störfum. Hún fékk því ekki tækifæri til þess að taka ofangreind atriði til umfjöllunar. Tilnefninganefndin fjallaði eðli málsins um hæfi Þórðar Más og segir í rökstuðningi nefndarinnar að hann hafi þekkingu og reynslu af rekstri og virkri fjárhagsskipan, sé langtímafjárfestir í Festi og þekki félagið vel. Jafnframt er minnst á að hann sé meðal 20 stærstu hluthafa félagsins. Í rökstuðningi nefndarinnar segir enn fremur:

Sameiginlegt viðhorf þeirra einkafjárfesta sem rætt hefur verið við er að æskilegt sé að í stjórn Festi sé a.m.k. einn fjárfestir sem eigi beina og verulega fjárhagslega hagsmuni af arðbærum rekstri félagsins. Undir það sjónarmið hafa fulltrúar lífeyrissjóða einnig tekið.“

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.