Líkur benda til þess að á árinu sem senn líður hafi lífeyrissjóðum landsins sem fyrr tekist farsællega að ávaxta sín pund. Raunávöxtun eigna sjóðanna á árinu 2020 var yfir 9% og 11,8% á árinu 2019. Horfur eru á góðri ávöxtun líka í ár en skynsamlegast að láta sjálfar tölurnar tala þegar þær liggja fyrir á fyrri hluta nýs árs.

Ávöxtun eigna er sá mælikvarði sem skiptir sjóðfélagana eðlilega hvað mestu máli, það er að segja hverju ávöxtun iðgjalda skilar viðkomandi þegar til á að taka á efri árum. Þegar litið er um öxl er ekki hægt að halda öðru fram en að bærilega hafi þar til tekist því undanfarin tíu ár hefur hrein raunávöxtun verið 5,7% að meðaltali á ári og árleg ávöxtun samtryggingardeilda sjóðanna að jafnaði verið 4,7% undanfarna þrjá áratugi. Þessi árangur er vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði við núvirðingu eigna og skuldbindinga í mati á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða.

Ég skal ekki segja hvort góður ávöxtunarárangur sé skýring á því að meiri friður hafi í seinni tíð ríkt um lífeyrissjóðina í opinberri umræðu en oft áður. Sú er allavega tilfinning mín að palladómar um sjóðina í samfélaginu séu í heildina tekið málefnalegri og sanngjarnari en gerðist í fyrri tíð. Athyglisvert er til að mynda að málefni lífeyrissjóða komu fremur sjaldan við sögu í stjórnmálaumræðum í aðdraganda alþingiskosninganna í september 2021, hver svo sem ástæðan er.

Kann ekki einfaldlega að vera að fleiri og fleiri meti það að verðleikum að lífeyrissjóðir hafi staðið sína plikt með miklum ágætum í gríðarlegum áföllum sem yfir þjóðina hafa dunið á fáeinum árum, fyrst með hruni fjármálakerfisins og síðar í heimsfaraldri kórónuveirunnar? Ýmsar aðrar stoðir brustu eða í þeim hrikti verulega en lífeyrissjóðakerfið stóð fyrir sínu.

„Ég hef alltaf vitað að mín upphefð kæmi að utan,“ sagði Kúnstner Hansen í Strompleiknum eftir Halldór Kiljan Laxness. Við erum líka hvað eftir annað minnt á það utan frá að íslenska lífeyrisskerfið sé ekki bara öflugt og gott heldur beinlínis með því besta sem gerist og til fyrirmyndar. Þannig birtu bandaríska ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute á dögunum alþjóðlegan samanburð lífeyriskerfa í 43 ríkjum um allan heim og þar trónaði Ísland á toppnum. Ísland var með í þessum samanburði í fyrsta sinn og í næstu sætum neðan við á listanum voru Holland og Danmörk.

Þarna eru fjölmargir þættir í lífeyriskerfum og umhverfi þeirra metnir á samræmdan hátt. Ísland fékk góða útkomu í mörgum þáttum en hvergi slaka útkomu. Kynjamunur í lífeyriskerfum var líka metinn í Mercer-skýrslunni og þar kom Ísland vel út, lenti í fjórða sæti á lista 34 ríkja. Í skýrslunni er bent á hvernig megi hækka heildareinkunn Íslands enn frekar í samanburðinum og eru þær ábendingar í þeim anda sem við störfum eftir sjálf, þ.e.a.s. að sitthvað megi finna að lífeyriskerfi okkar Íslendinga líkt og á við um öll mannanna verk og að lengi megi gera gott enn betra!

Ríkisstjórn þriggja flokka fékk í september skýrt umboð kjósenda til að starfa áfram og gerir það á grundvelli endurnýjaðs málefnasamnings. Fyrir forystusveit lífeyrissjóðakerfisins og stjórnvöldum liggur óhjákvæmilega að ræða mörg og afdrifarík álitamál sem varða samfélagið allt að meiru eða minna leyti. Ég ítreka að þetta þarf að vera samtal og samráð en ekki einhliða ákvarðanir í Stjórnarráðinu og stikla á stóru um nokkur helstu viðfangsefnin:

Samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna og hraðvaxandi óánægja eldri borgara með tekjuskerðinguna sem innbyggð er í almannatryggingakerfið.

Nýjar tillögur tryggingastærðfræðinga að lífslíkurtöflum fyrir þjóðina, spálíkan þar sem gert er ráð fyrir að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast. Á vegum lífeyrissjóða er fjallað um mótvægisaðgerðir vegna hækkandi lífaldurs en hver eru viðbrögð stjórnvalda? Eftir þeim er beðið.

Meginhlutverk lífeyrissjóða er að greiða sjóðfélögum ævilangan lífeyri við starfslok en samt kemur fjórðungur örorkulífeyris í landinu úr lífeyrissjóðum. Tryggingafræðileg áhætta vegna örorku er mjög mismunandi eftir sjóðum og við þá stöðu verður ekki unað.

Leyfilegt 50% hámarkshlutfall eigna lífeyrissjóða í erlendri mynt verður að hækka til að sjóðirnir geti dreift áhættu. Reyndar má spyrja hvort slíkt hámark eigi yfirleitt að vera til staðar.

Umsvif lífeyrissjóða í grænum fjárfestingum eru umtalsverð og munu aukast hratt og mikið á allra næstu árum. Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow var kynnt það markmið að til ársins 2030 myndu íslenskir lífeyrissjóðir verja jafnvirði 580 milljarða króna í verkefni sem tengjast hreinni orku og umhverfisvænum lausnum. Þarna kemur margt til álita, einkum endurnýjanlegir orkugjafar (jarðvarmi, vindorka, sólarorka), orkunotkun og orkunýting í húsum, flutningur orku og fleira. Af nógu er að taka fyrir lífeyrissjóði sem vilja vera drifkraftar og beita afli sínu, áhrifum og frumkvæði til góðra og grænna verka!

Ég óska landsmönnum velfarnaðar og gæfu á nýju ári.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .