Mörgum gefst tækifæri á lífsleiðinni að flytja erlendis vegna starfa sinna og taka upp búsetu á nýjum og spennandi slóðum. Hvort sem um er að ræða langvarandi dvöl erlendis vegna vinnu eða síendurteknar ferðir erlendis, þá krefjast slíkir flutningar þess að starfsmaðurinn, eða eftir atvikum vinnuveitandi hans, kynni sér erlendar laga- og skattareglur.

Rétt eins og fólki er skylt að fylgja umferðarlögum erlendra ríkja þegar ferðast er innan þeirra lögsögu þá gilda önnur lög í flestum tilvikum jafnt um innfædda og þá sem koma erlendis frá.

Í tengslum við flutninga erlendis vegna starfa má almennt flokka lagaleg álitamál í þrjá flokka:

  1. Vinnumarkaðslöggjöf
  2. Skattalög
  3. Útlendingalög / málefni innflytjenda

Vinnumarkaðslöggjöf

Mikilvægt er að átta sig á hvaða lagareglur gilda um ráðningarsamband starfsmanns við vinnuveitanda sinn. Óháð því frá hvaða landi vinnuveitandinn er þá njóta starfsmenn almennt verndar vinnumarkaðslöggjafar í því landi sem þeir eru staðsettir. Í flestum tilvikum liggur ábyrgðin á því að uppfylla kröfur vinnumarkaðslöggjafarinnar á vinnustaðnum hjá vinnuveitandanum.

Til dæmis er erlendum fyrirtækjum sem senda starfsmenn í tímabundin verkefni til Íslands oft skylt að sína fram á að kjör starfsmannanna samrýmist íslenskum kjarasamningum sem gilda um þá starfsstétt, þ.m.t. reglum um lágmarkslaun, yfirvinnu og hvíldartíma. Ákvæði ráðningarsamninga vinnuveitenda við starfsmenn sína sem kveða á um að samningana skuli túlka í samræmi við lög tiltekins ríkis koma ekki í veg fyrir að vinnumarkaðslöggjöf annars ríkið geti gilt um ráðningarsambandið ef starfsmaðurinn innir störf sín af hendi í því ríki.

Skattalög

Ef starfsmaður dvelur erlendis vegna starfa sinna eru ýmis skattaleg álitamál sem vakna upp og þarfnast skoðunar. Nauðsynlegt er að átta sig á hvar starfsmanninum ber að greiða skatta af tekjum sínum á því tímabili og hver ber ábyrgð á að skattinum sé skilað. Þá eru ýmis launatengd gjöld sem leggjast ofan á launagreiðslur í mörgum ríkjum sem vinnuveitendum ber oftar en ekki ábyrgð á að skila. Í þessu samhengi er einnig nauðsynlegt að átta sig á því hvort tvísköttunarsamningur sé í gildi milli Íslands og því erlenda ríki sem dvalið er í.

Útlendingalög

Við flutning yfir landamæri þarf ávallt að kanna þær reglur sem gilda um innflytjendur í móttökulandinu en þær reglur eru mjög breytilegar milli ríkja. Íslendingar hafa á grundvelli EES samningsins fremur rúm réttindi til dvelja í öðrum Evrópulöndum, að minnsta kosti til skamms tíma. Um leið og flutningurinn er ekki lengur innan Evrópu eða um lengri dvalir er að ræða krefjast slíkir flutningar mikillar skipulagningar sem felst meðal annars í að útvega atvinnuleyfi, vegabréfsáritanir og uppfylla aðrar skráningarskyldur.

Með aukinni alþjóðavæðingu á vinnumarkaði er sífellt algengara að fólki bjóðist að flytja eða ferðast erlendis vegna atvinnutækifæra. Það er hins vegar ávallt nauðsynlegt að kynna sér þau lagalegu atriði sem nefnd eru hér að ofan áður en á brott er haldið enda geta brot gegn þessum reglum oft verið dýrkeypt, fyrir launþega en engu síður fyrir vinnuveitendur.

Höfundur er lögfræðingur KPMG Law.