*

miðvikudagur, 14. nóvember 2018
Innlent 15. ágúst 2018 14:40

Capacent metur Marel á 328 milljarða króna

Ástæðan fyrir hærra verðmati er sögð vera stórbættur rekstur fyrirtækisins, mikill tekjuvöxtur og uppkaup félagsins á eigin bréfum.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marels.
Haraldur Guðjónsson

Greinendur ráðgjafarfyrirtækisins Capacent meta Marel á 328 milljarða króna en það er 33% meira en markaðsvirði fyrirtækisins er nú. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.  Ástæðan fyrir hærra verðmati er sögð vera stórbættur rekstur fyrirtækisins, mikill tekjuvöxtur og uppkaup félagsins á eigin bréfum. 

Kaupa eigin bréf

Í morgun birtist tilkynning í Kauphöllinni þess efnis að Marel hyggðist kaupa eigin bréf fyrir 1,8 milljarða króna. Fjöldi hluta eftir viðskiptin mun vera 55,7 milljónir.

Í tilkynningunni kemur fram að viðskiptin séu gerð á grundvelli heimildar frá stjórn Marel hf. til stjórnenda félagsins til að kaupa allt að 20 milljónum hluta að nafnvirði, sem ætlaðir eru sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum, samanborið við fréttatilkynningu frá 7. febrúar fyrr á þessu ári.

Munurinn á verðmatsgengi og markaðsgengi hefur aukist frá miðju ári 2017 en munurinn hefur aldrei verið meiri en nú. 

Hækka verðmat sitt um 10 milljarða króna

Í verðmati Capacent sem gefið var út í febrúar síðastliðnum og Viðskiptablaðið greindi frá var markaðsvirði Marels metið á 318 milljarða króna. Því hafa ráðgjafar fyrirtækisins hækkað mat sitt á markaðsvirði fyrirtæksins um 10 milljarða króna. Einnig kom fram í því verðmati að stjórnendur Marels geri ráð fyrir 12% vexti fyrirtækisins næstu 10 árin. Greinendur ráðgjafarfyrirtækisins efast um að vaxtarforsendur stjórnendanna séu yfirhöfuð skynsamar og spá að vöxtur fyrirtækisins verði langt undir þessu markmiði. 

Í gær samþykktu samkeppnisyfirvöld kaup Marels á þýska fyrirtækinu MAJA. Kaupverðið liggur þó ekki fyrir og eru áhrifin af kaupunum ekki mæld í verðmatinu samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Þó er talið að áhrifin á verðmatið séu væntanlega lítið þar sem MAJA sé afar lítið miðað við Marel en tekjur MAJA í fyrra voru einungis tæplega 3% af tekjum Marels samkvæmt tölum frá 2017. 

Stikkorð: Marel Capacent Verðmat