Meðal þess sem fram kemur í umfjöllun Bloomberg um Wow air á miðvikudaginn er að vextir nýútgefinna skuldabréfa félagsins – 9% álag á evrópska millibankavexti (EURIBOR) – séu þeir hæstu hjá evrópsku flugfélagi, í dollurum eða evrum, sem virkur markaður sé með, samkvæmt gögnum fréttaveitunnar.

Wow er sagt þurfa fjármagnið fyrir kröftuga vaxtarstefnu sína, en slík stefna hafi kollsteypt öðrum flugfélögum heimsálfunnar. Norwegian Air Shuttle hafi getað varist yfirtökutilburðum IAG SA og vinni nú að endurskipulagningu efnahagsreikningsins, og ítalska flugfélagið Alitalia, sem eitt sinn hafi verið í fararbroddi í heimalandi sínu, sé ekki rekstrarhæft.

Þá er sagt frá því að hið þýska Small Planet Airlines hafi sótt um greiðslustöðvun á þriðjudag, og að bæði Air Berlin, annað stærsta flugfélag landsins, og hið breska Monarch Airlines, hafi lagt upp laupana.

Hækkandi eldsneytiskostnaður er sagður vera þungur baggi á arðsemi flugfélaga um þessar mundir, og það nefnt að Wow hafi ekki varið sig gegn verðhækkunum eldsneytis, en Skúli Mogensen hafi sagt í samtali við Financial times að það fyrirkomulag kunni að vera endurskoðað.

Loks er sagt frá fyrirætlunum Skúla um að skrá félagið á markað og selja undir helmingshlut fyrir 200-300 milljón evrur á næstu 18 mánuðum.