Laun hækkuðu um 0,3% á milli mánaða í desember, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Hækkunin nemur nú 9,2% síðastliðna tólf mánuði og hafa laun ekki hækkað jafn mikið síðan um mitt ár 2007, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Greiningardeildin bendir á að meginþungi launahækkana eru til komin vegna kjarasamninga sem gerðir voru um mitt síðasta ár auk þess sem launaskrið hafi mælst síðasta haust. Deildin telur líklegt að þá skrifist á þá sem ekki hafi fasta kjarasamninga en hafi viljað fá laun sín hækkuð í takt við hina, svo sem stjórnendur og sérfræðinga hjá fyrirtækjum.

Deildin bendir jafnframt á að á síðastliðnum 12 mánuðum hafi vísitala neysluverðs hækkað um 5,3% og kaupmáttur launa aukist um 3,7%. Annað eins hefur ekki sést frá því í ágúst árið 2007. Vísitala kaupmáttar launa stendur í 111,1 stigum og hefur hækkað um rúm 6,9% frá því hún náði sínu lægsta gildi í maí árið 2010. „Kaupmáttur er þó enn töluvert minni, eða sem nemur um 7,6%, en þegar hann var sem mestur sem var í janúar árið 2008,“ eins og greining Íslandsbanka greinir frá.