*

laugardagur, 20. apríl 2019
Innlent 12. september 2017 16:50

Milljarða viðbótarálögur á ferðaþjónustu

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir það augljóst að ríkið hafi mikla trú á ferðaþjónustu hvað varðar tekjuöflun.

Pétur Gunnarsson
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir að áhyggjur ferðaþjónustunnar hafi raungerst í sumar.
Haraldur Guðjónsson

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að ef fjárlögin 2018 séu tekin sérstaklega fyrir sé það augljóst að ríkið hafi mikla trú á ferðaþjónustu hvað varðar tekjuöflun — en ekki sömu velvild hvað varðar uppbyggingu greinarinnar til framtíðar.

Í morgun kynnti Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjárlög fyrir árið 2018. „Á árinu 2018 er ljóst að viðbótarskattar og gjöld, sem leggjast beint á ferðaþjónustuna, nemna um fjórum milljarðar króna. Gistináttaskatturinn hækkar um milljarð, vörugjöld af bílaleigubílum um tvo og hálfan, ásamt fleiri hækkunum. Það eru umtalsverðar beinar skatta- og gjaldahækkanir á greinina,“ segir Helga í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er jákvætt að það á að efla rannsóknir í greininni, þó að rannsóknir á ferðaþjónustu séu enn hálfdrættingur miðað við það sem lagt er í aðrar atvinnugreinar,“ segir Helga.

Í fjármálaáætlun til ársins 2022 var áður stefnt að því að færa gistiþjónustu og aðra ferðaþjónustutengda starfsemi úr neðra þrepi í almennt þrep 1. júlí næstkomandi. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er verið að kynna er hins vegar gert ráð fyrir að færslan taki ekki gildi fyrr en í byrjun árs 2019. Þá er áætlað að efra þrepið lækki úr 24% í 22,5%.

Þegar Helga var innt eftir viðbrögðum við þessari breytingu svaraði hún: „Hvað varðar vaskinn er ekkert nýtt undir sólinni. Eitt og sér er það jákvætt að virðisaukaskatturinn verði samkeppnishæfur á næsta ári gagnvart samkeppnislöndum okkar. Það sem hefur gerst síðan að við vorum í þessari orðræðu við stjórnvöld í vor — er að að áhyggjur okkar hafa raungerst í sumar — bæði ytri og innri aðstæður versnað til muna. Samkeppnishæfni hefur versnað og svo lengi mætti telja. Við eigum eftir að taka umræðuna hvað varðar ætlaðar virðisaukaskattsbreytingar 2019. Við teljum mikilvægt að stjórnvöld sinni hlutverki sínu: Að tryggja súrefni til útflutningsatvinnugreinanna, þannig að þær geti eflst og enda forsenda jákvæðs hagvaxtar öflugur útflutningur,“ segir hún.

Mikilvægt að horfa á stóru myndina

Í vor þegar fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu sendu samtökin frá sér tilkynningu þar sem kom fram að fyrirhuguð hækkun myndi hafa í för með sér grafalvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki og ferðaþjónustu um land allt. Helga hefur áður bent á að blikur séu á lofti í ferðaþjónustu. Hún telur að miklar launahækkanir, styrking krónunnar og breytt neyslumynstur hafi þar mjög neikvæð áhrif á afkomu greinarinnar. 

Helga leggur áherslu á að mikilvægt er að menn horfi á stóru myndina þegar svo afdrifarík ákvörðun er tekin. „Ég vil trúa því að stjórnvöld muni skoða með okkur hina raunverulegu stöðu greinarinnar og taki alvarlega þau teikn sem eru á lofti,“ segir Helga. Á sama tíma má ekki gleyma því að í fjárlögum fyrir 2018 er verið að horfa til hækkunar á virðisaukaskatti að upphæð 21 milljarðar og á sú hækkun ekki síst uppruna sinn í neyslu erlendra ferðamanna,“ bætir hún við. Það eru gífurleg vonbrigði að einungis 0,5% af vergri landsframleiðslu séu lagðar í framkvæmdir á vegakerfinu, sem nálgast sögulegt lágmark hvað varðar út að sögn Helgu

Eins og að telja fjölda þorska

Þegar Helga er spurð út í það hvers vegna hún telji að fyrirhugaðri skattahækkun hafi verið frestað svarar hún að hún hafi talið að upprunalega hugmyndin hafi verið ógerleg fyrir stjórnvöld.

„Ég vil nú bara trúa því að menn séu að búa til smá svigrúm til að hugsa málið. Sú grunnforsenda sem að fjármálaráðherra lagði til þessara breytinga á virðisaukaskattinum, var fjöldi ferðamanna til Íslands. Það er nú komið í ljós að þær tölur eru verulega ofmetnar og það er ekki hægtað taka drastískar og afdrifaríkar ákvarðanir í skattaumhverfi greinarinnar út frá fjöldtölum inn til landsins, einum og sér. Þetta er eins og í gamla daga þegar menn voru bara að telja fjölda þorska en ekki heildarnýtingu,“ bætir hún við að lokum. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim