Þegar Sigríður Beinteinsdóttir keppti í fyrsta sinn í Eurovision náði hún og aðrir í hljómsveitinni Stjórninni besta árangri sem Íslendingar höfðu þá náð í keppninni. Hljómsveitin var á sínum tíma ein sú vinsælasta á landinu en aðalsöngvararnir eru þau Sigga Beinteins, eins og hún er kölluð, og Grétar Örvarsson.

„Eitt lag enn-platan seldist rosalega vel, en við gáfum hana út að vori, sem enginn hafði trú á þá, heldur var allt gefið út fyrir jólin á þeim tíma. Við fengum einhvern pening út úr því þegar hún var komin í platínu, en að öðru leyti get ég nú ekki sagt að Stjórnin hafi fengið mikið í sinn vasa út af þeirri plötusölu sem þá var, útgáfuefnið var meira notað sem kynningarefni fyrir böndin til að láta vita af sér og ná vinsældum og þá komu giggin til okkar,“ segir Sigga sem segir að jafnvel á gullaldartíma plötusölunnar hafi hún litlu skilað fyrir vinsælustu hljómsveitirnar.

„Hér er svo mikil smæð og mikill kostnaður í kringum plötuútgáfuna.“

Sveitaböllin að koma aftur

Hljómsveit Siggu og Grétars, Stjórnin, starfar enn í dag, en á þessum tíma fyllti hún Hótel Ísland allar helgar og síðar einnig Þjóðleikhúskjallarann.

„Hún hefur alveg farið í pásu, en aldrei hætt, við Grétar höfum spilað saman í öll þessi ár og verið á alls konar giggum, og stundum Stjórnin öll. Á síðasta ári varð hljómsveitin svo þrjátíu ára, og þegar við föttuðum það sjálf í janúar, klippti Grétar saman smá músík með hljómsveitinni og ég klippti saman svona um mínútu myndband með myndum úr ferlinum, sem ég hef voðalega gaman af. Svo settum við þetta á Facebook og bústuðum aðeins,“ segir Sigga sem lýsir því að við það hafi eins og einhverjar flóðgáttir hafi opnast.

„Allt í einu vorum við kölluð í fullt af viðtölum og allir voru svo spenntir, og boltinn byrjaði að rúlla aftur og gáfum til dæmis út nýtt lag. Við höfum verið að spila nánast samfleytt síðan, alveg fram að áramótum, við héldum stóra og flotta afmælistónleika í Háskólabíó síðasta haust og ætlum að endurtaka leikinn 5. október í ár.

Ein skemmtilegasta uppákoman á síðasta ári var þó þegar við fórum vestur á Búðardal og prófuðum að spila á svona gamaldags sveitaballi, þar sem fólk mætir bara með flöskuna. Við vorum ekki viss hvort við ættum að taka sjensinn á þessu, en við vorum svo hissa, því það mættu yfir 400 manns og þetta var alveg æðislegt, allur aldur að skemmta sér saman. Núna eru nefnilega að mæta bæði fólkið sem var að hlusta á okkur á sínum tíma, og unga fólkið sem eru börn þeirra. Ég væri alveg til í að prófa fleiri sveitaböll, ég held að þau gætu verið að koma aftur, svona miðað við áhugann sem við erum að finna fyrir núna.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .