*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 21. nóvember 2017 20:04

Stærsti hluthafi Eimskips skoðar sölu

Yucaipa Companies sem á 25,3% hlutafjár í Eimskipi skoðar nú mögulega sölu á bréfum í félaginu.

Ritstjórn

Yucaipa Companies, stærsti hluthafinn í Eimskip skoðar nú mögulega sölu á bréfum sínum að því er kemur fram í tilkynningu. Yucaipa á 25,3% hlutafjár í Eimskip.

Í tilkynningunni segir að árið 2009 hafi Yucaipa tekið þátt í endurskipulagningu á fjárhag Eimskipafélags Íslands og aðstoðað Eimskip við skráningu félagsins á hlutabréfa markað árið 2012. "Nú átta árum síðar hefur Yucaipa ákveðið að leggja mat á stöðu sína sem hluthafi í Eimskip, m.t.t. áframhaldandi eignarhalds eða mögulegrar sölu á hlut sínum í heild eða að hluta," segir í tilkynningunni en Yucapia hefur ráðið Deutsche Bank AG og Fossa markaði hf. sem ráðgjafa.

Þá segir ennfremur: "ákvörðun um framhaldið, kann að fela í sér sölu alls hlutafjár eða hluta þess, annað hvort í útboði eða með beinum viðskiptum. Allar ákvarðanir Yucaipa um sölu verða háðar aðstæðum á fjármálamörkuðum og í efnahagsumhverfinu almennt."

Eimskip birtu uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá.