*

laugardagur, 19. janúar 2019
Brynjar Örn Ólafsson
8. apríl 2018 10:43

Skuldabréf Norðurlanda

Íslenski skuldabréfamarkaðurinn má muna fífil sinn fegri þar sem hlutfall veltu af VLF náði tíu ára lágmarki í fyrra; 49%.

Aðsend mynd

Í lok árs 2017 var eignarhlutur erlendra fjárfesta 52% í útgefnum norskum ríkisskuldabréfum, 40% í dönskum bréfum og um 32% í sænskum bréfum. Samkvæmt Lánamálum ríkisins eiga erlendir fjárfestar minna í útgefnum íslenskum ríkisskuldabréfum eða einungis tæp 16%.

Eign erlendra aðila í íslenskum ríkisbréfum hefur dregist saman um nærri tíu prósentustig frá árinu 2010 sem rekja má að hluta til reglna Seðlabanka Íslands er tóku gildi í júní 2016. Samkvæmt þeim skal færa 40% af þeim erlenda gjaldeyri sem verja á í skuldabréf í krónum inn á svokallaðan fjárstreymisreikning sem ber 0% vexti til tólf mánaða.

Á bls. 5 í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands vegna vaxtaákvörðunar síðastliðinn 14. mars kemur fram að nefndarmenn töldu „[…] æskilegt að bindiskyldan yrði óbreytt enn um sinn.‟ Sérstaklega í ljósi vaxtamunar við útlönd, hás raungengis, framleiðsluspennu og aukinnar virkni miðlunarferlisins.

Lesning á fundargerðinni verður jafnvel spennandi ef nýlegur vinnupappír Seðlabanka Noregs er hafður til hliðsjónar (Likviditeten i det norske statsobligasjonsmarkedet, mars 2017). Í honum telja sérfræðingar bankans eftirspurn og þátttöku erlendra fjárfesta á frum- og eftirmarkaði með ríkisskuldabréf af hinu góða. 60% eign erlendra fjárfesta í norskum ríkisbréfum síðastliðin tíu ár virðist því ekki tiltökumál.

Samhljómur virðist með norskum lánamálum, dönskum (Statens låntagning og gæld 2017, janúar 2018) og sænskum (Underlag för utvärdering, febrúar 2018) þar sem áhugi fjárfesta frá Asíu og Norður-Ameríku á þarlendum ríkisskuldabréfum hefur aukist mikið undanfarið. Þannig má rekja um 75% af veltu aðalmiðlara með norsk ríkisskuldabréf til annarra fjáfesta en innlendra undanfarin ár.

Myndin sýnir veltu á skuldabréfamörkuðum Íslands, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar sem hlutfall af vergri landsframeiðslu (VLF) hvers lands. Leiðrétt hefur verið fyrir viðskiptum utan skipulegs verðbréfamarkaðar (OTC) og lánaviðskiptum (REPO). Heyra slík viðskipti til undantekningar á íslenska markaðnum og ef þau yrðu meðtekin teldist Ísland eftirbátur hinna þjóðanna.

Velta endurspeglar virkni markaða og myndun stigs grunnvaxta hagkerfisins. Sá íslenski má muna fífil sinn fegri þar sem hlutfall veltu af VLF náði tíu ára lágmarki í fyrra; 49%. Að hluta má rekja ástæðuna til lítils flots í svokölluðum íbúðabréfum sem eru stærstu verðtryggðu flokkar Kauphallarinnar. Innlendir lífeyrissjóðir „sitja á“ nærri 90% af útgáfu þeirra. Aftur á móti eiga sjóðirnir mun minna eða um 36% af útgefnum ríkisskuldabréfum sem útskýrir ekki af hverju velta þeirra hefur dregist saman um ríflega helming á tímabilinu.

Er það merki um vöntun á fjölbreyttari skoðunum?

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.