Hrekkjavaka Árbæjarsafnsins fer fram í fimmta skipti í kvöld milli klukkan 17:30 og 20:00. Að sögn verkefnastjóra safnsins er alltaf gaman að sjá safnið í öðru ljósi en gestum verður líka boðið upp á sælgæti.

Sigurlaugur Ingólfsson, verkefnastjóri Árbæjarsafns, segir að safnið muni tengja kvöldið við íslenska þjóðtrú og draugatrú. Vísað verður til að mynda í Djáknann á Myrká til að bæta íslenskri tengingu við hátíð sem mörgum finnst vera mjög amerísk.

„Við skiljum alveg að fólki finnst það pínu skrýtið að við séum að taka þátt í svona tískubylgju, en við reynum að draga fram íslenskan þjóðsagnararf líka. Eitt dæmi er að í stað þess að vera með grasker, þá skerum við út rófur, sem okkur finnst vera skemmtilegur tvistur á þeirri hefð,“ segir Sigurlaugur.

Árbæjarsafn byrjaði með Hrekkjavökukvöld árið 2018 en Sigurlaugur segir að á þeim tíma hafi margir byrjað að bjóða upp á uppákomur í kringum þá hátíð. „Við ákváðum þá bara að hoppa á þann vagn líka og það bara sló í gegn.“

Safnið mun tengja kvöldið við íslenska þjóðtrú og draugatrú.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann segir að umhverfið spili vel inn í kvöldið þar sem safnið er ekki staðsett í miðju hverfi og er því lýsingin minni og meira myrkur. Húsin eru þar að auki frekar gömul og geta verið pínu ógnvekjandi. Gestir munu einnig koma til með að heyra hljóð í myrkrinu frá ýmsum verum.

Í lok kvöldsins mun elddrottningin svo sýna listir sínar og mun starfsfólk síðan kveikja bálköst.

Sigurlaugur minnir á að gestir þurfi að tryggja sér miða fyrir fram á Tix og að börn 12 ára og yngri verða að mæta í fylgd með fullorðnum. Viðkvæmar sálir eru einnig hvattar til að hafa með sér fylgdarmann til halds og trausts. Kvöldið er heldur ekki ætlað börnum á leikskólaaldri.