Í augum margra listamanna hefur hápunkti ferilsins ekki verið náð fyrr en maður hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum. Í áratugi hafa hljómsveitir eins og Bítlarnir og Rolling Stones ferðast til Bandaríkjanna til að spila og með því orðið heimsfrægar.

Vegabréfsáritanir fyrir listamenn hafa hins vegar hækkað töluvert í verði og segja listamenn að þeir tapi nú pening á því að halda tónleika þar í landi.

Í byrjun mánaðar tvöfaldaðist kostnaðurinn á vegabréfsáritunum fyrir listamenn og kostar nú í mörgum tilfellum rúmlega 1.000 dali auk annarra gjalda.

Bandaríska sendiráðið sagði í samtali við BBC að það græddi ekkert á þessum gjöldum og að verðhækkanirnar væru aðeins vegna hærri útgjalda.

Írska söngkonan CMAT segir í viðtali að jafnvel fyrir nýjustu verðhækkanir hafi það verið mjög dýrt að ferðast til Bandaríkjanna. Hún bætir við að túr í Bandaríkjunum sé ekki lengur möguleiki fyrir unga listamenn.

„Í hvert skipti sem ég fer þangað þá tapa ég peningum. Við erum aldrei að fara græða pening þar. Ég er að vísu heppin þar sem ég hef gefið út tvær plötur, sem þýðir að ég hef pening til að tapa í Bandaríkjunum,“ segir CMAT, eða Ciara Marcy-Alice Thompson.

Listamenn geta fengið tvenns konar vegabréfsáritanir, O eða P áritanir, og fer það eftir því hvort þú sért sólólistamaður með mikla hæfileika eða hljómsveit sem býr yfir alþjóðlegri frægð. Fyrir verðhækkanirnar kostuðu báðar áritanir 460 dali.

Nýju verðin eru mismunandi og tekur það mið af mismunandi þáttum, eins og til dæmis með hverjum hljómsveitin vinni með á meðan hún er í landinu. Ofan á það getur svo bæst við lögfræðikostnaður og afgreiðslugjöld.