Fljótlega eftir að Indíana kláraði fæðingarorlofið með eldri strákinn sinn skall á hinn hundleiðinlegi heimsfaraldur með tilheyrandi lokunum líkamsræktarstöðva. Indíana sá sér leik á borði og fór að vinna í hlutum sem hana hafði lengi langað að gera en hafði aldrei gefið sér tíma í.

„Covid lokanirnar fengu mig til að setja það sem ég var að gera online í miklu betri búning. Í dag finnst mér netþjálfunin mín vera eins og ég vil hafa hana, lifandi og persónuleg. Ekki bara excelskjal með æfingum eða app með stuttum klippum,“ segir Indíana.

Í dag vinnur hún 50/50 prósent sem stað- og netþjálfari sem er nákvæmlega eins og hún vill hafa það. „Ég vil hafa bæði. Ég vil hitta fólk, vera á staðnum og vera í aksjóni en svo elska ég líka netfyrirkomulagið. Það gefur svo mikið að ná að vinna með fólki sem getur ekki mætt til mín í stöðina á ákveðnum tímum,“ segir Indíana stolt.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Samhliða þjálfuninni í heimsfaraldrinum vann Indíana einnig að matar- og svefnnámskeiði. Það var hugmynd sem hún hafði unnið að í marga mánuði en aldrei náð að klára almennilega. Fyrsta námskeiðið hófst nokkrum vikum fyrir fæðingu yngri sonar hennar í júlí 2021 og hefur hún nú farið með fjölmarga hópa í gegnum námskeiðið með frábærum árangri.

Námskeiðið er uppsett sem einfaldur leiðarvísir og skiptist í 30 kafla. „Einn kafli um morgunmat, annar um matarinnkaup og enn annar um hugarfar í tengslum við mat,“ segir Indíana og heldur áfram að telja upp kafla námskeiðsins. Á námskeiðinu er unnið eftir NÁST formúlunni sem Indíana sjálf setti saman en skammstöfunin stendur fyrir næringu, ánægju, seddu og tilfinningu.

Nánar er rætt við Indíönu Nönnu í blaðinu Eftir vinnu sem kom út þann 30. júní. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.