Það er mjög notalegt að eyða tíma saman í kósí uppi í sófa en það brýtur líka upp á hversdagsleikann að fara úti og gera eitthvað skemmtilegt saman sem par.

Hér að neðan eru fimm hugmyndir að stefnumóti utandyra sem Eftir vinnu tók saman fyrir lesendur.

Fjallganga

Hvort sem það er morgunn, dagur eða kvöld þá er hressandi að fara saman í fjallgöngu, sérstaklega í góðu og fallegu veðri. Ef gangan er í lengri kantinum gæti líka verið gaman að taka með smá nesti og drykki.

Dragið fram gönguskóna og veljið ykkur fjall eða fell til að ganga upp á. Þetta er fullkomin leið til að kynnast betur eða eiga gott spjall.

Náttúrulaugar

Að keyra saman í íslenskri náttúrurunni með uppáhalds tónlistina ykkar í gangi getur ekki klikkað. Hvað þá ef þið stoppið og takið sundsprett í einni af fjölmörgum náttúrulaugum landsins.

Sjósund

Fyrir öll sem eru ekki kuldaskræfur þá getur verið gaman að fara saman í sjósund og jafnvel gera það að reglulega deiti.

Kajak

Fyrir ævintrýraþyrsta er gaman að skella sér út á kajak. Þið getið ýmist verið saman á kajak eða á sitthvorum. Og auðvitað alltaf plús ef það er gott veður, helst spegilsléttur sjór og sólsetur.

Veiði

Allt veiðifólkið þarna úti ætti klárlega að rómantísera veiði. Að vera saman úti í nátturinni þar sem annar makinn getur kennt hinum ef svo ber undir eða ef báðir aðilar eru með allt upp á tíu þá hafið þið bara gaman að og njótið þess að vera saman.