Kvika banki skilaði tæplega 1,2 milljarða króna hagnaði eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 1,5 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 13,1% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 16,1% á sama tímabili í fyrra. Kvika birti uppgjör eftir lokun markaða í dag.

„Rekstur Kviku gekk vel á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Afkoma félagsins er í samræmi við áætlanir og sérstök áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu innviða félagsins að undanförnu,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, í afkomutilkynningu.

Fjárfestingatekjur verulega undir áætlun

Hreinar vaxtatekjur samstæðu Kviku námu 2.255 milljónum króna og jukust um 44% miðað við sama tímabil árið áður. Aukningin er helst rakin til útlánavaxtar og hækkandi vaxtastigs sem eykur vaxtatekjur af skuldabréfaeignum. Hreinar þóknanatekjur námu tæplega 1,6 milljörðum og lækkuðu um 3% á milli ára.

Hreinar fjárfestingartekjur námu 218 milljónum króna á fyrsta fjórðungi og voru verulega undir áætlun að því er segir í tilkynningunni. Til samanburðar námu hreinar fjárfestingatekjur samstæðunnar 808 milljónum á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

Marinó segir að rekstur dótturfélagsins TM hafi skilað góðri afkomu „á almennt tjónaþungu tímabili“ og iðgjaldavöxtur hafi verið í takt við verðlagsþróun. Samsett hlutfall TM var 99,7% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 101,0% á sama tímabili árið á undan.

Heildareignir samstæðu Kviku jukust um 4% eða 13 milljarða króna á fyrsta fjórðungi 2023 og námu 313 milljörðum króna í lok mars. Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna í lok tímabilsins.

Marinó minnist einnig á samrunaviðræður við Íslandsbanka og segir þær miða vel áfram. „Verkefnið er umfangsmikið og það eru mörg skref í svona ferli, en eins og tilkynnt var um í síðustu viku munu fjárhagslegir ráðgjafar skila greiningum sínum á öðrum ársfjórðungi og í kjölfar þess munu félögin taka ákvarðanir um næstu skref í ferlinu.“